149. löggjafarþing — 5. fundur,  17. sept. 2018.

orkuöryggi þjóðarinnar.

[16:26]
Horfa

Smári McCarthy (P):

Frú forseti. Við þurfum auðvitað að byrja á að tryggja orkuafhendingaröryggi núna og það felur í sér að laga tengingar í Eyjafirði. Ég skil ekki af hverju þær geta ekki bara farið í svipað far og verið samsíða þeim línum sem fyrir eru. Við þurfum að laga Reykjanesið, það er sama sagan þar. Svo þarf líka að hætta með þessar bábiljur um að Hvalárvirkjun sé einhvers konar forsenda hringtengingar eða orkuöryggis á Vestfjörðum.

Hringtenging er forsenda hringtengingar á Vestfjörðum, það er það sem skapa mun orkuöryggið. Hvalárvirkjun getur í rauninni (Gripið fram í: Aukaatriði.) — verið aukaatriði, já.

Svo þurfum við að tala um framtíðina. Þar er fullt af verkefnum. Rafbílavæðingu er mikið búið að ræða. Byrjað er að rafvæða strætóflotann. Það þarf að bæta net almenningssamgangna þannig að fólk hafi aðra möguleika en að fara um eitt síns liðs í 2,5 tonna trukkum. Svo þarf líka að einbeita sér að því að bæta og auka innlenda framleiðslu á metani vegna þess að ekki byggja allir valkostir á því að geta verið með rafhlöður. Þá er ég að hugsa um skip og annað álíka.

Við þurfum að nýta vindorku betur, við þurfum að nýta sjávarfallaorku. Við þurfum líka að fara að huga að geymsluaðferðum fyrir afgangsorku og umframframleiðslugetu til nýtingar síðar. Það þarf að skoða skilvirknikröfur til iðnaðarferla, það þarf að skoða skilvirknikröfur til skipa í sjávarútvegi eða leggja áherslu á rafvæðingu eða metanvæðingu fiskiflotans eftir því sem því verður við komið. Þar eru ákveðnir flækjuþættir þar sem rafhlöður eru oft afskaplega viðkvæmar fyrir vatni.

Svo mætti líka hugsa um þetta sem nýsköpunartækifæri. Það væri áhugavert að fá stuðning við ýmiss konar tækniþróun til að draga úr þörfinni á jarðefnaeldsneyti (Forseti hringir.) og hugsa stórt. Það væri gaman að sjá einhvers konar öfluga frumkvöðla framleiða jafnvel rafmagnsflugvélar eða rafmagnsskip hér á landi og jafnvel fara að selja úr landi. Við getum gert alla þessa hluti en við þurfum bretta upp ermarnar.