149. löggjafarþing — 5. fundur,  17. sept. 2018.

orkuöryggi þjóðarinnar.

[16:28]
Horfa

Halla Signý Kristjánsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ríkisstjórnin er með metnaðarfulla aðgerðaáætlun í loftslagsmálum og eitt af stærstu verkefnum í þeim málum er að minnka gróðurhúsalofttegundir með orkuskiptum í samgöngum með sérstakri áherslu á rafvæðingu í vegasamgöngum. Í aðgerðaáætluninni í loftslagsmálum stendur, með leyfi forseta:

„Verulega verður aukið við fjárfestingar og innviði vegna rafvæðingar í samgöngum en áætlað er að verja 1,5 milljörðum kr. á næstu fimm árum til uppbyggingar innviða fyrir rafbíla, rafvæðingar hafna og fleiri nauðsynlegra aðgerða í orkuskiptum hér á landi.“

Forsenda fyrir þessu er raforkuöryggi um land allt og næg orka. Það skiptir máli að innviðir verði byggðir upp um landið allt til að auka hvata sem treysta áætlunina og tryggja að hún nái fram.

Það rímar frekar illa við metnaðarfulla stefnu þegar talað er um uppbyggingu á varaaflsstöðvum á Vestfjörðum og t.d. á Eyjafjarðarsvæðinu sem knúnar eru með dísilolíu. Á að tengja skip við olíuframleitt rafmagn eða hlaða bíla með rafhleðslu frá dísilorkuverum?

Við verðum að standa okkur betur í þessum efnum.

Virðulegi forseti. Það er ljóst að ekki sitja allir landsmenn við sama borð þegar kemur að aðgengi að tryggu rafmagni. Það þarf virkilega að setja í forgang öruggt flutningsnet til þessara staða. Í fyrsta lagi þarf að fullnýta þá raforku sem framleidd er í landinu og það verður gert ekki síst með öruggu flutningsneti og á Vestfjörðum þarf að nýta virkjanir sem fyrirhugaðar eru í fjórðungnum. Þá skipta tengipunktar máli og flutningsnet.

En nú stendur yfir vinna við orkustefnu fyrir landið. Það liggur í augum uppi að aðgerðaáætlun ríkisstjórnar í loftslagsmálum verður að ríma við orkustefnuna þannig að ef það næst samhljómur í þessum stefnum er það leið til að bæta raforkuöryggi um allt land.