149. löggjafarþing — 5. fundur,  17. sept. 2018.

orkuöryggi þjóðarinnar.

[16:33]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Frú forseti. Ég ætla að þakka kærlega bæði hæstv. ráðherra fyrir hennar innlegg í samtalið og þeim fjölmörgu þingmönnum sem hafa lagt orð í belg. Það var mjög áhugavert að sjá hvað menn eru samstiga í því að þetta sé óásættanleg staða og það þurfi að finna lausnir.

Það hafa margar hugmyndir komið hér fram og það er ákveðinn tónn í þeim en þær eiga það svolítið sammerkt að vera stórhuga og menn eru kannski svolítið að tala inn í lengri framtíð en mér finnst við geta leyft okkur þegar við erum að kljást akkúrat við þetta mál sem er raforkuöryggið á Vestfjörðum annars vegar og í Eyjafjarðarsveit hins vegar. Þetta snýst einfaldlega um að jafna tækifæri fólks til að byggja upp líf og atvinnu á þessum stöðum og við stöndum ekki undir nafni sem samfélag sem ætlar sér að hafa jöfn lífsskilyrði um land allt ef þetta er ekki í lagi. Þetta er nútímamál. Þetta er ekkert sem við leysum inn í framtíðina þótt ég átti mig alveg á því að það sé mjög mikilvægt að menn hugsi til lengri tíma líka.

Það eru kannski tveir meginstraumar í umræðunni, annars vegar sá straumur sem hefur verið í umræðunni hérna og svo er það Hvalárvirkjunin sem tengist þessu óumdeilanlega. Ég verð eiginlega að segja að á meðan það er ekki óumdeilt að Hvalárvirkjun ein og sér tryggi raforkuöryggi á Vestfjörðum og á sama tíma valdi ekki óafturbættum skaða á náttúrunni, þá þurfum við að stíga hægt til jarðar þar. En það þýðir ekki að við séum stikkfrí eða stjórnvöld í þessum málum þar til að einhverja aðrar leiðir, framsæknari, nást.

Mig langar eiginlega að ljúka umræðunni hérna á því að brýna hæstv. ráðherra, af því hæstv. ráðherra talaði um það áðan að það væru lögbundnir ferlar í tengslum við rammaáætlun og slíkt en á sama tíma þá búum við við það að nánast allar raflínur sem Landsnet hefur ætlað að byggja í meginflutningskerfinu hafa mætt andstöðu og farið í tafir. Það er raunveruleikinn sem við búum við. Ég veit, ráðherra, að þetta er stórt verkefni, ég átta mig algjörlega á því, en mig langar bara að brýna hæstv. ráðherra til að líta á málið bæði frá skammtíma- og langtímahagsmunum, þ.e. að finna leiðir í samstöðu við samráðherra og þingheim til (Forseti hringir.)að leysa þennan brýna vanda að jafna búsetuskilyrði út um allt land hvað þetta varðar og á sama tíma að vinna áfram að því, eins og ég veit að (Forseti hringir.) hæstv. ráðherra er að gera með ríkisstjórninni, að mála upp stóru myndina; hvernig við getum tryggt það (Forseti hringir.) að við verðum einfaldlega best í heimi þegar kemur að umhverfisvænu rafmagni fyrir þjóðina.