149. löggjafarþing — 5. fundur,  17. sept. 2018.

lögfesting samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

21. mál
[16:54]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir framsögu sína í þessu máli. Ég tel að samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks sé einhver mikilvægasti mannréttindasáttmáli sem við höfum séð á síðari árum. Hann skiptir alveg rosalega miklu máli, ekki bara fyrir fatlað fólk heldur fyrir samfélagið allt. Hann gerir samfélagið að mínu mati betra fyrir alla, þ.e. ef honum er fylgt eftir. Í aðdraganda þess að samningurinn var fyrst samþykktur af Alþingi og svo meðan var verið að vinna að og krefjast þess að hann yrði innleiddur sat ég þó nokkra fundi þar sem rætt var um hvora leiðina ætti að fara, fullgilda hann eða lögfesta. Það voru í raun ýmis rök fyrir báðum leiðum. Sumir sögðu einmitt að það ætti að gera þetta að lögum, það væri best að það væri þannig strax, en aðrir töldu að breyta ætti lögum til samræmis við samninginn. Ég tel að nefndin þurfi að fá aftur á sinn fund sérfræðinga og fara mjög vel yfir það því að mér finnst hvort tveggja í raun koma til greina. Ég er, myndi ég segja, frekar jákvæð fyrir því að lögfestingarleiðin sé skoðuð. Ég vil taka fram að ég styð það eindregið að valkvæði viðaukinn verði líka fullgiltur eins og er búið að samþykkja að eigi að gera á Alþingi.

Mig langar að spyrja hv. þingmann út í þýðingarnar, vegna þess að það eru fjórar mismunandi þýðingar í gangi, hvort ekki sé mikilvægt að byrja á því að klára þau mál þannig að við séum þá alla vega með þann texta sem á að lögfesta í gildi ef við ákveðum að (Forseti hringir.) fara þá leið. Ég spyr hvort þingmaðurinn taki undir það með mér að þar verðum við að hafa fræðasamfélagið með okkur til þess að orðalagið sé skothelt, hvort sem hér verður áfram um innleiðingu eða lögfestingu að ræða.