149. löggjafarþing — 5. fundur,  17. sept. 2018.

lögfesting samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

21. mál
[16:59]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég tek undir með hv. þingmanni um að við eigum ekki að láta kerfiskalla ráða því hvaða leið við förum í málum sem þessum, en vil jafnframt taka það fram að ég er ekki nógu vel að mér í hinum dýpri lagatæknilegu atriðum, sem hv. þingmaður fór reyndar ágætlega yfir í sinni ræðu, til þess að geta alveg gefið upp hvað mér finnist vera rétta leiðin til að fara. Ég tel að það sé mjög mikilvægt að þingnefnd fari yfir rökin með og á móti. Líkt og vísað var til áðan var barnasáttmálinn lögfestur og mér finnst sjálfsagt mál að horfa til þess hvernig að því var staðið og skoða einmitt sérstaklega rökin fyrir því af hverju það var gert og vita hvort þau gildi líka um þetta mál. Það getur bara alveg verið að það gildi.

Aðeins aftur að þýðingunum. Þegar samningurinn var fullgiltur fór það í gegnum hæstv. utanríkisráðherra og utanríkismálanefnd. Þaðan kom í raun textinn sem var prentaður sem fylgiskjal með þingsályktunartillögunni nema það er í raun velferðarnefnd sem hefur miklu meiri og dýpri sérþekkingu á málinu. Ég held að það hafi verið hjá Þýðingamiðstöðinni sem gerðar voru ákveðnar breytingar frá þeim texta sem hafði áður verið unninn í ákveðnu samráði milli fræðafólks, fatlaðs fólks og stjórnvalda þannig að hér held ég að eitthvert samtal þurfi að eiga sér stað. Svo velti ég því líka upp að hv. þingmaður vísaði málinu til hv. velferðarnefndar — ég verð að viðurkenna að hér spyr sú sem ekki veit: Er það nefndin sem á að fá þetta mál eða ætti þetta mögulega að vera á hendi hæstv. dómsmálaráðherra? Ég held að hér þurfi kannski bara að fá leiðbeiningar (Forseti hringir.) um það hver sé rétta leiðin í gegnum flækjur þingsins til að finna nefndina sem á að vinna málið. Ég hlakka bara til þess að sú vinna fari í gang.