149. löggjafarþing — 5. fundur,  17. sept. 2018.

lögfesting samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

21. mál
[17:02]
Horfa

Flm. (Ágúst Ólafur Ágústsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Fyrst þetta síðasta, ég fékk ráðleggingu frá þinginu, frá sérfræðingi Alþingis, um að ég ætti að mælast til að þetta færi til velferðarnefndar. Ég hugsaði með mér hvort þetta ætti að fara til allsherjar- og menntamálanefndar. Ég man þegar spurningin var um lögfestingu barnasáttmálans, þá fór það til allsherjarnefndar þess tíma. Ég fékk þá ráðleggingu að málið ætti að fara til velferðarnefndar. Helstu málaflokkar sem lúta að réttindamálum fatlaðra heyra undir þá nefnd en fyrir mér skiptir ekki öllu til hvaða nefndar þetta mál fer. Ég fékk þessar ráðleggingar frá sérfræðingi þingsins.

Aðalatriðið er að málið fari í gegn, að málið sé unnið vel, að sjálfsögðu. Ég er bjartsýnn á að við getum gert það. Ég tek undir varðandi þýðingarnar. Við skulum láta utanríkisráðuneytið sjá um EES-þýðingarnar sínar. Um að gera, sérfræðiþekkingin liggur í velferðarráðuneytinu — þannig að, já, ég myndi þá kalla eftir því að velferðarráðuneytið eða sérfræðingar þess ráðuneytis komi að þýðingu þessa samnings. Ég bara furða mig á því að ekki sé búið að lagfæra þýðinguna í ljósi þess að athugasemdin sem kom frá velferðarnefnd er tveggja ára gömul. Kannski er einhver vinna hafin hvað þetta varðar.

Varðandi kerfiskallarökin hef ég brennt mig svo oft á þeim í þessum sal. Maður heyrir oft þau kerfiskallarök að ekki sé hægt að stíga einhver skref. Ég heyrði þetta í þrjú ár, ég held að ég hafi lagt það fram þrjú ár í röð að hér ætti barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna að vera lögfestur. Ég fékk alltaf þessi kerfiskallarök í hausinn.

Sömuleiðis barðist ég í mörg ár fyrir því að kynferðisafbrot gegn börnum yrðu gerð ófyrnanleg. Þá fékk ég alltaf þessi kerfiskallarök í hausinn: Nei, þetta tíðkast ekki. Þetta tíðkast ekki í Danmörku og við getum ekki verið öðruvísi en Danmörk o.s.frv. Svo bara náði ég fram þessum pólitíska vilja og Ísland varð fyrsta land í heiminum sem gerði alvarleg kynferðisafbrot gegn börnum ófyrnanleg. Hér í þessum sal getum við tekið refsipólitískar ákvarðanir, hér í þessum sal getum við tekið pólitískar ákvarðanir sem lúta að auknum mannréttindum og það er það sem ég er að kalla eftir að kollegar mínir í þessum sal geri, að við tökum bara þessa pólitísku ákvörðun að lögfesta þennan lykilsamning sem lýtur að réttindamálum fatlaðs fólks í okkar samfélagi.