149. löggjafarþing — 5. fundur,  17. sept. 2018.

lögfesting samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

21. mál
[17:13]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M):

Virðulegur forseti. Við ræðum hér tillögu til þingsályktunar um lögfestingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Ég vil byrja á því að þakka framsögumanni og fyrsta flutningsmanni kærlega fyrir. Að mínu viti eru mikilvægustu skilaboð samningsins þau að fatlaðir einstaklingar eigi fullan rétt núna ef við samþykkjum þetta, á viðurkenndum mannréttindum til jafns við aðra og þeir eigi að njóta sjálfstæðs lífs og einstaklingsfrelsis eins og allir aðrir.

Til að svo megi verða er í samningnum lögð sérstök áhersla á tækifæri fatlaðs fólks. Það er afar mikilvægt atriði á öllum sviðum mannlífs og samfélags og spjótum beint að venjum, siðum, staðlaðri ímynd, fordómum, skaðlegri framkvæmd, einangrun eins og kom hér fram hjá síðasta ræðumanni, og útilokun sem oft tengist fötluðu fólki.

Ef við bökkum aðeins þá var lögð fram þingsályktunartillaga um fullgildingu samningsins 2016 og hún var samþykkt. Með því voru stjórnvöld skuldbundin til að tryggja fötluðu fólki réttindi sem samningurinn mælir fyrir um en sú skuldbinding er jú aðeins samkvæmt þjóðarrétti eins og fyrsti flutningsmaður kom inn á hér fyrr. Því er samkvæmt íslenskri réttarskipan ekki hægt að beita samningnum með beinum hætti fyrir íslenskum dómstólum eins og hægt er að gera með almenn lög nema hann hafi verið lögfestur. Þess vegna stöndum við hér í dag með þessa þingsályktunartillögu, enda er hún afar mikilvæg.

Það sem mér finnst einnig mikilvægt er sú félagslega sýn sem birtist hvað skýrast í samningnum. Með öðrum orðum, þessi samningur fjallar um mannréttindi einstaklinga. Það ætti ekki að vera neitt vandamál að lögfesta hann enda viljum við væntanlega öll koma upp velferðarsamfélagi þar sem gert er ráð fyrir öllum og þar sem við tökum utan um alla.

Okkur barst póstur í morgun frá Landssamtökunum Þroskahjálp og ég ætla, með leyfi forseta, að lesa litla klausu en þó mikilvæga sem kemur fram í honum:

„Með því að lögfesta samninginn verður mannréttindum fatlaðs fólks veitt aukin vernd og réttaröryggið eykst. Fatlaður einstaklingur getur þá borið ákvæði samningsins fyrir sig sem ótvíræða réttarreglu fyrir dómi eða stjórnvöldum. Lögfesting mun vekja jafnt almenning og þá sem fjalla um málefni fatlaðs fólks fyrir dómstólum, í stjórnsýslu og við undirbúning að lagasetningu, til frekari vitundar um mannréttindi fatlaðs fólks og þá virðingu sem verður að ætlast til að þeim sé sýnd í réttarríki. Lögfesting samningsins um fatlað fólk mun og auka, á alþjóðavettvangi, traust á virðingu íslenska ríkisins fyrir mannréttindum.“

Ég ætla ekki að hafa þetta lengra, en ég þakka þessa ágætu umræðu og ég vil þakka fyrsta flutningsmanni kærlega fyrir þessa þingsályktunartillögu og ég vona að hún fái brautargengi.