149. löggjafarþing — 5. fundur,  17. sept. 2018.

lögfesting samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

21. mál
[17:34]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Frú forseti. Ég verð bara að koma hingað upp því mér fannst gæta aðeins misskilnings. Ég styð málið að sjálfsögðu heils hugar eins og kom fram hjá okkur í samtali í morgun á opinberum vettvangi, mér og hv. þingmanni. Ég er ekki að tala um að þetta fari inn í einhverja kerfishít og týnist. Ég var bara að velta fyrir mér þessu sem gerðist í kringum barnasáttmálann. Þegar við lögfestum hann voru mörg önnur lög sem þurfti að breyta. Það á klárlega við um þetta mál líka. Það er það sem ég er að reyna að segja. Getum við flýtt þessu? Ég er eiginlega svolítið að segja það. Nefndin tekur þetta til sín og vinnur það. Hún gerir það. Og kallar alla til og allt það. En það væri bara hið besta mál að stýrihópurinn tæki þetta mál upp hjá sér líka, burt séð frá afgreiðslunni hér í þinginu. Og jafnvel getur nefndin sem fær þetta hreinlega óskað eftir því að samhliða verði það gert, byrjað á því að fara yfir það hvort einhvers staðar þurfi breytingar á lögum að eiga sér stað til þess að við getum gert þetta hratt og vel. Það er það sem ég átti við, svo að sá misskilningur sé leiðréttur.