149. löggjafarþing — 5. fundur,  17. sept. 2018.

óréttmæti málshöfðunar Alþingis gegn ráðherrum og afsökunarbeiðni.

6. mál
[17:37]
Horfa

Flm. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M):

Virðulegur forseti. Tillagan hljóðar svo:

„Alþingi ályktar að rangt hafi verið að leggja fram tillögu til þingsályktunar um málshöfðun gegn ráðherrum hinn 28. september 2010, samanber þingsályktun nr. 30/138. Viðkomandi ráðherrar verðskuldi afsökunarbeiðni vegna þessa.“

Sú tillaga sem ég flyt hér er flutt af hópi þingmanna úr þremur flokkum. Flutningsmenn benda í greinargerð á nokkur grundvallaratriði. Í fyrsta lagi að niðurstaða Landsdóms sýni að ekki var tilefni til ákæru. Í öðru lagi að ekki hafi verið gætt samræmis við það hvernig lögum um ráðherraábyrgð, almenn hegningarlög eftir atvikum og þar með lögum um Landsdóm, hefur verið beitt, þ.e. að orðið hafi ýmis tilvik í stjórnmálasögunni þar sem ákvarðanir og aðgerðir, eða aðgerðaleysi, stjórnmálamanna kunni að hafa stefnt hagsmunum landsins í hættu án þess að menn hafi þá séð tilefni til að bregðast við því með ákæru. Í þriðja lagi gera flutningsmenn athugasemd við hvernig atkvæðagreiðsla um málshöfðunina fór fram. Hún bar merki þess að annað af tvennu hefði gerst, að annaðhvort hefði átt sér stað alveg ótrúleg tilviljun sem hafi þá ráðið því hver var ákærður og hverjir ekki, eða það sem virðist eiginlega blasa við, að ákveðnir þingmenn hafi skipt með sér verkum í atkvæðagreiðslunni á þann hátt að það tryggði að aðeins einn ráðherra, Geir H. Haarde fyrrverandi forsætisráðherra, yrði ákærður en aðrir ekki þrátt fyrir að fjallað hafi verið um ráðherrana alla í tillögu sérstakrar þingmannanefndar sem lagði til ákæru á hendur ráðherrunum.

Í fjórða lagi benda flutningsmenn á að lýðræðislegu stjórnarfari landsins standi ógn af því ef reynt er að fá starfandi eða fyrrverandi stjórnmálamenn dæmda í fangelsi vegna pólitískra aðgerða eða eftir atvikum aðgerðaleysis án þess að uppi hafi verið ásetningur um brot eða ásetningur um að valda tjóni. Við þekkjum það, virðulegur forseti, að ýmsar stjórnmálastefnur og aðferðir í stjórnmálum geta verið til þess fallnar að valda samfélögum talsverðu tjóni. En ágreining um slíkt á að leiða til lykta í kosningum en ekki fyrir dómstólum.

Mér finnst rétt að taka fram að ég var aldeilis ekki stuðningsmaður þeirrar ríkisstjórnar sem þeir ráðherrar sem hér um ræðir áttu sæti í. Öðru nær. Þessi ríkisstjórn var starfandi þegar ég hóf þátttöku í stjórnmálum og má eiginlega segja að þátttaka mín í stjórnmálum hafi byrjað sem afleiðing af andstöðu við þá leið sem sú stjórn fór í við að fást við mjög umfangsmikil úrlausnarefni sem samfélagið stóð þá frammi fyrir. Því fer fjarri að ég hafi verið sammála pólitíkinni, stefnunni, sem var rekin í tíð þeirrar stjórnar. Hins vegar fannst mér það í senn fráleitt og í raun óhugnanlegt að þegar sú ríkisstjórn var farin frá og tækifæri var til að ráðast í stefnubreytingu skyldu menn ráðast í að reyna að fá ráðherra þessarar stjórnar dæmda í fangelsi fyrir með hvaða hætti þeir nálguðust þessi stóru viðfangsefni á sínum tíma. Menn gátu eins og ég verið algerlega ósammála ráðherrunum og ríkisstjórninni um hvernig hún stóð að málum en það að ætla að bregðast við því með því að reyna að setja þetta fólk í fangelsi leiddi til þess að hér á Íslandi fóru fram pólitísk réttarhöld yfir einum fyrrverandi ráðherra, fyrrverandi forsætisráðherra landsins.

Eins og menn eflaust muna flestir var naumur meiri hluti þingmanna fyrir því, naumur meiri hluti samþykkti að ákæra fyrrverandi forsætisráðherra fyrir sex atriði. Tveimur þessara atriða var strax vísað frá af Landsdómi, ekki einu sinni tekin fyrir, ekki talin þess bær. Ráðherrann var sýknaður í þremur af eftirstandandi fjórum ákæruatriðum en meiri hluti dómara, þó ekki dómararnir allir, taldi rétt að dæma Geir H. Haarde fyrir léttvægustu og óljósustu sakargiftirnar, að hafa ekki bókað í fundargerðir ríkisstjórnar umræðu um þær efnahagslegu hamfarir sem þá riðu yfir heiminn og voru í fréttum á hverjum einasta degi. En af því að ráðherrann hafði ekki látið bóka það sérstaklega að ríkisstjórnin hefði rætt þetta umtalaðasta mál þess samtíma var hann dæmdur fyrir það. Þó taldi dómurinn brotið ekki veigameira en svo að ábyrgðin var að refsingin yrði engin og auk þess, og það er sérstaklega áhugavert og setur nú hlutina svolítið í samhengi, að ríkið skyldi greiða málskostnaðinn. Svoleiðis að niðurstaðan sýndi svo ekki varð um villst að málatilbúnaður þingnefndarinnar sem lagði til ákæru og afstaða meiri hluta þingsins í máli Geirs H. Haarde átti engan rétt á sér.

Það er svo fráleitt að halda því fram að með dómi Mannréttindadómstóls Evrópu í málum sem varða meðferðina hjá Landsdómi felist einhver réttlæting á málsmeðferð Alþingis í þessu máli. Að Landsdómur hafi ekki verið talinn brotlegur við mannréttindalög í því hvernig hann hélt á þessu máli breytir í engu því að það var óforsvaranlegt af hálfu Alþingis að halda á málum eins og þingið gerði, eða meiri hluti þess, og kæra fyrrverandi forsætisráðherra fyrir þá stjórnmálastefnu eða það hvernig hann hélt á málum fyrir nú áratug síðan.

Virðulegur forseti. Það hefur líka oft og tíðum verið villandi umræða um Landsdóm og lög um Landsdóm. Jafnvel hefur verið leitast við að stilla þessu máli þannig upp að þingmannanefndin sem lagði til ákæru og þingmennirnir sem samþykktu hana hafi neyðst til þess vegna þess að við höfum setið uppi með úrelt lög um Landsdóm. Það er alveg fráleitur málatilbúnaður. Ég tala nú ekki um þegar því er svo bætt við að annar fyrrverandi forsætisráðherra, sú sem var forsætisráðherra á þeim tíma þegar ákært var í málinu, Jóhanna Sigurðardóttir, hafi lagt fram þingsályktunartillögu um endurskoðun laga um Landsdóm þegar árið 2001. Maður heyrir jafnvel gefið í skyn að bara ef þessi tillaga Jóhönnu Sigurðardóttur hefði verið samþykkt hefði mátt komast hjá þessu öllu saman.

Staðreynd málsins er hins vegar sú að Geir H. Haarde var ekki ákærður fyrir brot á lögum um Landsdóm. Hann var ákærður fyrir brot á lögum um ráðherraábyrgð og á almennum hegningarlögum. Ef menn hefðu verið búnir að leggja Landsdóm niður hefði það í engu breytt þessari ákæru, málið hefði einfaldlega verið rekið fyrir almennum dómstólum.

Og hvað með tillögu Jóhönnu Sigurðardóttur frá 2001? Var hún til þess fallin að draga úr hættunni á pólitískum réttarhöldum? Það er öðru nær. Tillagan snerist nefnilega um að fyrirkomulag þess að ákæra ráðherra væri of þung í vöfum. Það þyrfti að einfalda skipan mála. Með öðrum orðum: Það var of flókið, of erfitt, að efna til pólitískra réttarhalda á Íslandi að mati Jóhönnu Sigurðardóttur árið 2001. Hún lagði til að skoðað yrði hvort ástæða væri til að leggja niður Landsdóm og reka málin fyrir almennum dómstólum. Það fylgdi sögunni. Þó var sérstaklega tekið fram að ef sú yrði raunin ætti Alþingi áfram að fara með málshöfðunarréttinn. Og einnig að skoða mætti breytingu á réttarfarslögum svo Alþingi gæti tilnefnt sérstaka meðdómendur þegar það höfðaði mál gegn ráðherrum. Það er náttúrlega algerlega brjálæðislegt að leggja til að þingið geti ákært ráðherra og skipað sína eigin dómara. Að ákærandinn geti valið dómara til þess að dæma yfir þeim sem ákærður er.

En þetta er ekki búið, virðulegi forseti. Þetta á eftir að versna því að í þessum tillögum kom líka fram að tilefni gæti verið til þess að veita minni hluta þingmanna, tilteknu hlutfalli, málshöfðunarrétt gegn ráðherrum. Með öðrum orðum: Menn gætu hefnt þess fyrir dómstólum sem hallaðist á Alþingi. Minni hluti þingmanna gæti ákveðið að ákæra ráðherra og skipað dómara til að dæma hann.

Þetta var tillaga Jóhönnu Sigurðardóttur um endurskoðun laga um Landsdóm og hefði augljóslega ekki verið til þess fallin að draga úr hættunni á pólitískum réttarhöldum, þvert á móti hefði hún gert þau margfalt líklegri.

Niðurstaða mannréttindadómstólsins annars vegar og allt tal um hugsanlega og að öllum líkindum tímabæra endurskoðun laga um Landsdóm breytir þar af leiðandi engu um að efnt var til pólitískra réttarhalda á Íslandi. Það er mikilvægt að takast á við þá staðreynd og nota það tækifæri sem nú gefst til að leiða það mál til lykta, sýna afstöðu Alþingis til þess.

Ég hef áður gert nokkrar tilraunir til að bregðast við þessu máli, bæði áður en tillaga um málshöfðun var samþykkt á sínum tíma og svo nokkrum sinnum eftir að það var orðinn hlutur. Ég læt vera að rekja það hér, hef gert það annars staðar, en vildi bara nefna það til þess að ítreka að þetta er ekki bara að koma til fyrst núna tíu árum eftir að málið hófst, ef svo má segja, heldur er þetta afleiðing og framhald af löngu ferli. En það er mjög mikilvægt að Alþingi noti tækifærið sem nú gefst til að ákveða að það sé rangt að efna til pólitískra réttarhalda og að þessi 1088 ára gamla stofnun tali skýrt í því efni.

Þegar efnt var til réttarhaldanna, þegar ráðherrann var ákærður og reynt að ákæra fleiri, var mikið rætt um mikilvægi uppgjörs. Við hljótum þó að vera þeirrar skoðunar að nú sé mikilvægt að gera upp þetta Landsdómsmál. Á sínum tíma má segja að ýmsir þeirra sem gengu hart fram í þessu hafi vitnað óbeint í Robespierre, einn af leiðtogum frönsku byltingarinnar, sem sagði: „Þótt ákvörðun um ákærur geti ef til vill ekki talist prinsipp í sjálfu sér er hún afleiðing af prinsippinu um lýðræði og því sem þarf að gerast til að vernda samfélagið.“ Við heyrðum svipaðan málflutning vegna Landsdómsmálsins. Þegar kom að því að dæma franska kónginn á sínum tíma, árið 1792 held ég að það hafi verið, sagði Robespierre: „Það er með mikilli hryggð sem ég lýsi hinum óumflýjanlega sannleika að Lúðvík þarf að deyja svo að landið geti lifað.“ Ég held að við höfum heyrt svipaða hluti fyrir ekki svo löngu hér á Íslandi þó að ekki hafi verið um dauðarefsingu að ræða í því tilviki, sem betur fer.

En öfgar og fráhvarf frá grundvallarprinsippum réttarríkisins eru alltaf réttlætt út frá almannahag. Þá vitna ég í annan mann, mann sem skrifaði um frönsku byltinguna og spáði því hvernig hún myndi þróast, írska heimspekinginn Edmund Burke, sem sagði: „Það er algeng alhæfingarvilla að ímynda sér að þeir sem kvarta hæst yfir hagsmunum almennings séu þeir sem bera hagsmuni hans helst fyrir brjósti.“

Besta leiðin til að verja hagsmuni heildarinnar er að verja rétt hvers og eins, óháð því hverjir þeir eru. Með þessari tillögu fær Alþingi tækifæri til að staðfesta að það prinsipp verði í hávegum haft og hafna pólitískum réttarhöldum á Íslandi.

Að lokinni þessari umræðu legg ég til að málið gangi til hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar.