149. löggjafarþing — 5. fundur,  17. sept. 2018.

óréttmæti málshöfðunar Alþingis gegn ráðherrum og afsökunarbeiðni.

6. mál
[18:01]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Frú forseti. Þetta eru ágætispunktar hjá hv. þingmanni. Ég hef verið mikill talsmaður þess að menn sem fara illa með vald sitt viðurkenni það, þeir biðjist afsökunar. En í þessu tiltekna tilfelli fékk Mannréttindadómstóll Evrópu þetta mál til sín og mat það á grundvelli mannréttindalaga, mannréttindasáttmála Sameinuðu þjóðanna, nei, Evrópusambandsins …(Gripið fram í.) Nei, Evrópu, þetta er Evrópuráð, nú er ég að rugla alls konar hlutum saman. En það var farið yfir þetta og komist að þeirri niðurstöðu að þetta væri allt saman í samræmi við góðar venjur.

Hvort einstakir þingmenn á þeim tíma hafi farið illa með vald sitt þegar þeir greiddu atkvæði með þessari tillögu er þeirra hausverkur og þeirra að meta. En ég get ekki litið svo á að Alþingi sjálft hafi farið illa með vald sitt í þessu tilfelli þar sem það var uppi rökstuddur grunur sem reyndist réttur í einum ákærulið, að vísu mjög lítilvægum en reyndist engu að síður réttur varðandi það að ekki hefði verið fylgt öllum lögum með fullnægjandi hætti.

Auðvitað eiga menn að bera ábyrgð á því þegar þeir fara illa með vald sitt. Mikið væri ég til í það ef það væri miklu algengara fyrirbæri í íslenskri pólitík. En það breytir því ekki að þetta var gert með lögmætum hætti. Mannréttindadómstóll Evrópu komst að þeirri niðurstöðu að þetta hefði verið gert með réttmætum hætti og það á ekki að þurfa að fjölyrða um það meir. Það getur verið að við getum verið ósammála um þetta en það sem ég er kannski fyrst og fremst að fara fram á er að ef einhverjir tilteknir aðilar sem voru þingmenn á þeim tíma upplifa að þeir hafi farið illa með vald sitt eiga auðvitað þeir að biðjast afsökunar. En Alþingi á ekki að sóa tíma sínum í þetta þar sem þetta var allt saman rétt gert.