149. löggjafarþing — 5. fundur,  17. sept. 2018.

óréttmæti málshöfðunar Alþingis gegn ráðherrum og afsökunarbeiðni.

6. mál
[18:03]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mannréttindadómstóll Evrópu er ekki að taka afstöðu efnislega um þetta mál. Hann er einfaldlega að segja: Þetta fyrirkomulag er ekki brot á sáttmálanum. Það breytir því ekki að það eigi að skoða það hvernig menn fóru með vald sitt. Ef ríkissaksóknari fer illa með vald sitt, tilefnislausar ákærur og eitthvað slíkt, þá fettir Evrópudómstóllinn ekkert fingur út í það. Formið er allt í lagi, skipulagið er allt í lagi. En efnislega og þegar maður skoðar málið, hv. þingmaður, getur enginn sagt annað en að þessi ákæra, og allir hennar liðir nema þessi eini formliður, var auðvitað pólitískt uppgjör. Ef menn sjá það ekki eru þeir algerlega blindir í mínum huga. En menn geta verið sáttir við það og talið eðlilegt að fara í eitthvert slíkt uppgjör. Ég tel það ekki eðlilegt. Þeir sem fara með ákæruvald eiga ekki að fara í pólitískt uppgjör. Það er mitt mat. Og ef Alþingi hefur gert það þá á það að biðjast afsökunar á því. Ekki einn og einn þingmaður. Annað eins kemur nú úr þessu þingi í þingsályktunartillögum í gegnum tíðina.

Við getum ekki bara sagt: Þetta var bara þannig ástand, svo sérstakt ástand. Við getum reynt að réttlæta þessa vitleysu með því að við vorum í uppnámi og áfalli. Gerum það þá bara. En ég verð að segja eins og er að þetta voru pólitísk réttarhöld. Það blasir við. Það hefur ekkert með Mannréttindadómstól Evrópu að gera. Við eigum að passa það, og það er kannski tilgangurinn með þessu öllu saman, að við förum ekki aftur í eitthvert svona uppgjör af þessu tagi meðan lögin eru enn þá til staðar, (Forseti hringir.) förum ekki aftur í svona uppgjör þegar þannig árar og við verðum fyrir slíkum áföllum.