149. löggjafarþing — 5. fundur,  17. sept. 2018.

óréttmæti málshöfðunar Alþingis gegn ráðherrum og afsökunarbeiðni.

6. mál
[18:05]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Frú forseti. Það er svo sem rétt hjá hv. þingmanni að það kemur ýmislegt farsakennt út úr þessum sal. Eigum við að biðjast afsökunar á því í hvert einasta skipti sem einhver vond þingsályktunartillaga er samþykkt, einhver vond lög sett í gang, jafnvel lög sem valda fólki áþján úti í samfélaginu? Eða ætti kannski hver og einn þingmaður að bera aðeins meiri ábyrgð á því hvernig hann starfar og vera aðeins meðvitaðri um afleiðingarnar af gjörðum hans?

Var þetta pólitískt uppgjör? Ég veit það ekki. Ég var ekki í pólitík á þeim tíma. Meira að segja stjórnmálaflokkurinn sem ég starfa með var ekki til. Ég fylgdist auðvitað með þessu en það er ekki það sem ég er að benda á. Það sem ég er að gagnrýna er að það að ákæra, það að hafa efasemdir um réttmæti, sé gert tortryggilegt. Það felst í þessari tillögu. Ég er ekki á því að það eigi að fara í pólitískar nornaveiðar. Það er ekki góð hugmynd. Og auðvitað verður fólk að bera ábyrgð á því. En þegar verkfærið er notað, verkfæri sem eins og hv. þingmaður bendir réttilega á er fullkomlega fínt að forminu til, þá er sem betur fer þetta dásamlega fyrirbæri sem heitir dómstóll á bak við sem tekur lokaákvörðun um hvort rétt hafi verið farið með vald. Ef venjulegur saksóknari eða ríkissaksóknari fer illa með vald sitt, ákveður að ákæra einhvern í pólitískum eða persónulegum tilgangi og fer illa með vald sitt, þá er þó dómstóll til staðar til þess að taka lokaákvörðun. Sem betur fer. Það væri vont ef ákæruvald og dómsvald væri spyrt saman. En í þessu tilfelli tók Alþingi þessa ákvörðun, kannski í pólitískum tilgangi, kannski ekki, en dómstóllinn vann sitt verk fullkomlega og skilaði fínni niðurstöðu. Við eigum bara að fagna því, ekki að vera núna næstum því tíu árum síðar að reyna að ýfa þetta upp.