149. löggjafarþing — 5. fundur,  17. sept. 2018.

óréttmæti málshöfðunar Alþingis gegn ráðherrum og afsökunarbeiðni.

6. mál
[18:24]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (Flf):

Frú forseti. Ég tel þetta mál hafa skírskotun langt út fyrir það landsdómsmál sem er tilefni þessarar tillögu. Í mínum huga vegur þyngst í þessu máli að standa vörð um að Ísland sé réttarríki án þess að nokkur afsláttur sé gefinn í því efni.

Réttarríkið og lýðræðislegt stjórnarfyrirkomulag eru hyrningarsteinar íslensks samfélags. Fagnaðarefni er að fá tækifæri til að undirstrika mikilvægi réttarríkisins og mætti hafa stór orð um hverju menn standa frammi fyrir þegar þess nýtur ekki við. Menn þekkja hvernig fer fyrir mannréttindum og siðmenningu í alræðisríkjum þar sem réttarríkið er eins og hver önnur framandi hugsun. Í réttarríki eiga pólitísk sjónarmið ekkert erindi á vettvang ákæruvalds og alþingismenn eiga ekki að hafa áhrif á hverjir sæta ákæru. Pólitísk uppgjör eiga að fara fram á vettvangi stjórnmála en ekki dómstóla.

Þessi þingsályktunartillaga felur í sér áréttingu á að Ísland sé réttarríki og kröfu um að reglur réttarríkisins séu virtar. Þess vegna styð ég þessa tillögu.