149. löggjafarþing — 5. fundur,  17. sept. 2018.

óréttmæti málshöfðunar Alþingis gegn ráðherrum og afsökunarbeiðni.

6. mál
[18:26]
Horfa

Páll Magnússon (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka fyrsta flutningsmanni þessa máls fyrir koma með það inn í þingið með þessum hætti og gefa okkur öðrum tækifæri á að vera meðflutningsmenn að þessu þarfa máli.

Ég segi eins og sumir þeir sem tekið hafa til máls í dag að ekki sat ég hér þegar þetta fór fram. Ég var starfandi í fjölmiðlum og horfði á þetta utan frá og inn, og leið satt best að segja önn fyrir að horfa upp á það sem fór fram á Alþingi á þessum tíma. Það er ekki svo, eins og kom fram hjá hv. þm. Smára McCarthy hérna áðan, að tíma þingsins sé illa varið í að ræða þetta. Hér er um algjört grundvallaratriði að ræða í störfum þingsins. Það mætti meira að segja leiða að því nokkuð sterk rök að tíma þingsins væri sjaldan betur varið en að ræða einmitt þetta mál.

Þetta er nefnilega, eins og hv. þm. Brynjar Níelsson komst að orði áðan, spurningin um að misfara með vald, ekki með venjulegt vald heldur ákæruvald. Það er ekki eins og um hafi verið að ræða einhvers konar venjulega saksókn eða ákæru af hálfu saksóknara í þessu máli. Það var um það að ræða að Alþingi tók pólitíska ákvörðun um að ákæra tiltekna einstaklinga. Það er svo alveg sérstakur kapítuli hvernig atkvæðagreiðslan fór og var athyglisvert að heyra frá hv. þm. Gunnari Braga Sveinssyni, sem var hér vitni að þessum atburðum öllum eða þessum ódæmum öllum, eins og ég vil kalla það, hvernig menn skipulögðu atkvæðagreiðsluna sem endaði svo með þessum forkastanlega hætti. Ég held að það sé engin tilviljun að þeir eru nú ekki fjölmennir í þingsalnum úr þeim flokki sem smánarlegast gekk fram í atkvæðagreiðslunni.

Nei, þessum tíma er ekki illa varið, þessu síðdegi hér til þess að ræða þetta. Ég gladdist svo að heyra hv. þm. Söru Elísu Þórðardóttur segja, ef ég skildi hana rétt, að hún hefði skipt um skoðun. Hún hefði fyrst verið sammála samflokksmanni sínum hv. þm. Smára McCarthy um að þetta væri illa farið með tímann en hún hafi síðan komist að raun um að tilefni væri til að ræða þetta.

Það þarf svo sem ekki að setja á langa ræðu um þetta. Ég vildi þó bara segja það í lokin að mér liði satt best að segja töluvert betur sem alþingismanni í þessum sal ef ég fengi tækifæri til þess að biðjast afsökunar á þeirri ósvinnu sem Alþingi vann hér fyrir tæpum áratug. Verið er að tala um Alþingi hér sem stofnun, það er ekki tala um Alþingi endilega í samhengi við þá einstaklinga sem sátu hér þá. Þess vegna er nú t.d. ríkisvaldið að biðjast afsökunar á ýmsum hlutum sem unnir voru hér fyrir áratugum varðandi dvalarheimili, upptökuheimili og annað það sem unnið var í skjóli ríkisins á sínum tíma. Ríkið telur sér nú ekki bara skylt að biðjast afsökunar á því heldur einnig að bæta það með einhverjum hætti.

Og ég endurtek að sjálfum liði mér betur ef Alþingi bætti fyrir þessa ósvinnu með því að biðjast afsökunar á þessu.