149. löggjafarþing — 5. fundur,  17. sept. 2018.

óréttmæti málshöfðunar Alþingis gegn ráðherrum og afsökunarbeiðni.

6. mál
[18:30]
Horfa

Flm. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M):

Virðulegur forseti. Ég þakka þeim hv. þingmönnum sem tóku þátt í þessari umræðu eða hlýddu á hana. Ég vil þó nefna sérstaklega að mér brá nú svolítið í brún við að hlýða á ræðu hv. þm. Smára McCarthys vegna þess að með ræðu sinni fannst mér þingmaðurinn sýna að það væri svo sannarlega þörf á þessari umræðu. Þar sem mér fannst eiginlega óhugnanlegt í málflutningi hv. þingmanns voru skilaboðin um það að það væri ekkert stórmál þó að menn væru ákærðir, menn ættu jafnvel bara að vera glaðir yfir að vera ákærðir til að fá tækifæri til að sanna sakleysi sitt.

Ástæðan fyrir því að mér þótti þetta óhugnanlegt er sú, fyrir utan það hversu fráleitt þetta er, að þetta er nákvæmlega það sama og menn fengu að heyra í Austur-Þýskalandi á sínum tíma og í Sovétríkjunum. Menn ættu nú bara að gleðjast yfir ákæru, þá fengju þeir tækifæri til að sanna að þeir væru saklausir menn. Að nefna það svo í samhengi við þetta mál hér á Íslandi finnst mér til marks um að ekki veiti af því að Alþingi árétti að hér á landi komi pólitísk réttarhöld ekki til greina og að menn ráðist ekki í ákærur bara til þess að gefa þeim tækifæri til þess að sanna sakleysi sitt.

Meira segja er látið fylgja sögunni að þeir ráðherrar sem ekki voru ákærðir hefðu eiginlega bara verið óheppnir að fá ekki tækifæri til að sanna sakleysi sitt.

Og svo þetta að það sé svo langt um liðið, það séu komin tíu ár — ég efast um að að mati fórnarlambsins, þess sem var ákærður, að mati Geirs H. Haardes, séu liðin tíu ár frá því að þetta mál kláraðist, ef það er í hans huga búið yfir höfuð.

Þetta er nefnilega mál sem hefur aldrei verið klárað og er þar af leiðandi óuppgert, fyrst við tölum um uppgjör. En með því að þingið álykti að það hafi verið rangt að standa að þessum ákærum, eða tilraunum til ákæru, getum við á vissan hátt klárað þetta mál, þó að eins og hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson nefndi hverfi það auðvitað ekki alveg fyrir vikið.

Ég bendi hv. þingmönnum á það, ef einhverjum þykir óviðeigandi að þeir sjálfir, eða upplifa það sem svo að þeir sjálfir persónulega séu að biðjast afsökunar með því að samþykkja þessa tillögu, að orðalag tillögunnar veitir talsvert svigrúm. Þar segir að „viðkomandi ráðherrar verðskuldi afsökunarbeiðni“. Menn geta svo bara metið það út frá sjálfum sér hvaðan þeir verðskuldi þá afsökunarbeiðni. En með samþykkt þessarar tillögu væri þó þingið að klára málið á vissan hátt fyrir sitt leyti, sýna að þetta væru að mati Alþingis mistök, mistök sem þessi stofnun sem slík eða meiri hluti þingmanna og þar af leiðandi þessi stofnun hefði gert á sínum tíma og mistök sem menn ætli aldrei, aldrei að endurtaka.