149. löggjafarþing — 5. fundur,  17. sept. 2018.

vextir og verðtrygging.

16. mál
[19:17]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Hæstv. forseti. Fyrst af öllu vil ég þakka 1. flutningsmanni, hv. þm. Ólafi Ísleifssyni, fyrir hans ágætu ræðu hér áðan sem var bæði fróðleg og glögg og greinargóð eins og hans var von og vísa. Glöggskyggni Ólafs kemur líka vel fram, eins og hv. þingmaður sagði hér á undan, í greinargerðinni sem fylgir frumvarpinu. Nú í vor lögðum við Miðflokksmenn fram frumvarp sem miðaði að því að húsnæðisliður yrði tekinn út úr vísitöluútreikningi. Það frumvarp var fellt hér í nafnakalli af stjórnarflokkunum. Samfylking og Píratar sátu hjá. Það hvarf síðan til ríkisstjórnarinnar og situr þar í einhverju svartholi. Ég hef ekki mikla trú á því að það hljóti nokkra afgreiðslu þar þrátt fyrir orð hæstv. fjármálaráðherra í fjárlagaumræðunni um að hann vildi hafa hér lága vexti. Ég fagna því þessu frumvarpi og þess vegna stend ég að því.

Árið 2013, þegar ég var á allt öðrum stað í pólitík, vorum við einmitt í baráttu fyrir þessu máli, þ.e. að afnema hér verðtryggingu. Hluta þess hóps hefur brostið kjark. Þeir hafa farið annað og reyndar selt þessa hugmynd sína fyrir þægilega stóla eins og þá sem eru á bak við mig. En við Miðflokksmenn höfum haldið baráttunni áfram ótrauðir. — Ég vildi óska þess, herra forseti, að þeir sem fylgjast með þessari útsendingu gætu séð áhugann sem endurspeglast í þingsalnum hér í dag. Hér er enginn Framsóknarmaður. Hér er enginn Samfylkingarmaður. Hér er enginn Pírati. Hér er enginn Sjálfstæðismaður nema auðvitað hæstv. forseti, það munar um hann. En enginn af fulltrúum þessara flokka tekur þátt í umræðunni. Jú, hér birtist hv. þm. Jón Þór Ólafsson og brosir mjög. Ég vona að það sé merki þess að hann vilji taka þátt í umræðunni sem er væntanlega ein af þeim merkilegri sem fram fer á þessu þingi. Það þarf náttúrlega ekki að geta þess að fulltrúar fjölmiðla eru hér víðsfjarri þó að þetta mál skipti 100 þús. heimili í landinu mjög miklu máli.

Ég man að árið 2013, þegar aktív barátta mín fyrir þessu máli hófst, orðaði ég það þannig í kosningabaráttu — og hér kemur Framsóknarmaður í salinn og veri hann velkominn — að ekki væri hægt fyrir okkur að bjóða einni kynslóð Íslendinga í viðbót, fólki sem kannski væri búið að mennta sig þrítugt, verðtryggt lán til 40 ára. Þeir mundu líklega borga upphæðina fjórum sinnum — mánaðarupphæðin mundi líklega þrefaldast á þessum tíma — og að þessu loknu gætu menn farið á eftirlaun. (Gripið fram í.) Þessi framtíðarsýn er ekki það sem ungt fólk á Íslandi vill. Það er talið að við eigum 20 þús. manns erlendis, Íslendinga, sem annaðhvort eru í námi, hafa lokið námi, eða treysta sér alla vega ekki til að flytjast hingað til Íslands.

Á Norðurlöndum, þar sem stærsti hópurinn er, bjóðast mönnum kjör á húsnæðislánum allt niður í 1,75%. Af því að því hefur stundum verið haldið fram úr þessum ræðustól og annars staðar að við getum ekki haft jafn samkeppnisfæra vexti og Norðurlöndin hafa út af íslensku krónunni þá langar mig til að geta þess að á síðustu tveimur til þremur misserum hefur norska krónan rýrnað um 20–25% þó að hún sé aðeins að hjarna við aftur af því að olíuverð hefur hækkað. Þar búa menn samt við það að hafa 1,75–2,5% vexti á húsnæðislánum. Og verðtrygging? Nei, hún er ekki þar.

Þetta mál, mjög vel unnið, veitir manni þá von að einhverjir muni finna hjá sér döngun til þess að fá áhuga eða láta hann í ljós því að þetta er eitt stærsta hagsmunamál sem við eigum, Íslendingar, sérstaklega þeir sem eru að reisa sér húsnæði yfir höfuðið. Ef þetta frumvarp verður samþykkt mun það líka gera Ísland samkeppnisfærara hvað það varðar að hér vilji fólk búa og lifa af því það fær tækifæri til að gera það með líkum hætti og þar sem það býr nú á Norðurlöndunum til dæmis.

Síðast þegar ég athugaði var neysluvísitalan eða 12 mánaða verðbólga mæld u.þ.b. 2,8%, aðeins á uppleið, án húsnæðisliðar mínus 0,1%. Munurinn þarna á milli á ársgrundvelli — ætli það muni ekki heimilin í landinu einum 50 milljörðum. Á þeim fimm árum sem eru liðin frá því að sá sem hér stendur byrjaði að tjá sig um þessi mál og reyna að berjast fyrir því að þetta yrði lagfært með einhverjum hætti — ætli það séu ekki einir 200 milljarðar, það sem heimilin í landinu hafa greitt lánastofnunum umfram það sem annars hefði verið. Það kæmi mér ekki á óvart. Sú hugmynd sem hér kemur fram og sú tillaga sem hér kemur fram, um að festa verðtryggða vexti í 2%, er mjög skynsamleg að mínu mati. Hún veitir mönnum ákveðinn stöðugleika og frumvarpið er í sjálfu sér mjög gott skref í þá átt að afnema verðtryggingu með öllu af neytendalánum. Þess vegna eigum við náttúrlega — hér kemur Vinstri grænn þingmaður í gættina en þorir ekki inn — að sammælast um að vinna bug á þeirri óværu sem verðtrygging er. Eins og ég segi, þetta frumvarp hér er mjög gott innlegg í það.

Ég eiginlega trúi því ekki fyrr en ég tek á því að aðrir þingmenn, þó að þeir þori ekki að taka þátt í umræðunni, geti það ekki eða treysti sér ekki til þess, sjái ekki skynsemina í því, þegar þetta frumvarp kemur til nefndar, og öðlist þá kjark til að taka á málinu með einhverjum hætti, vegna þess að unga fólkið okkar og heimilin í landinu eiga það inni hjá okkur.

Við erum núna á vetri þar sem samningar eru lausir. Ferskasti armur verkalýðshreyfingarinnar, við getum kannski kallað hann það, í landinu hefur talað um að lægri vextir séu innlegg í kjaraviðræðurnar sem standa fyrir dyrum. Auðvitað eru lægri vextir innlegg inn í þær viðræður. Bæði er það að lægri vextir gera fyrirtækjunum kleift að borga betri laun og lægri vextir, og þar með lægri afborganir af lánum, t.d. til húsnæðiskaupa, gætu haft í för með sér að kröfugerð verkalýðsfélaganna taki mið af því og verði hugsanlega hógværari fyrir vikið. Í sjálfu sér, sem fulltrúi flokks sem hefur skynsemi og skynsamleg rök á oddinum, skil ég ekki af hverju menn taka ekki á þessum hlutum.

Ekki er nema vika eða tíu dagar síðan Seðlabankinn hélt áfram óbreyttum stýrivöxtum þegar við erum að koma niður úr toppi hagsveiflu. Rök peningamálastefnunefndar eru nákvæmlega jafn óskiljanleg og þau hafa alltaf verið, af því það skiptir engu máli hvað gerist fyrir utan Seðlabankann. Það skiptir ekki máli hvort hagvöxtur er rísandi eða hnígandi. Það skiptir ekki máli hvort svokallaðar verðbólguvæntingar eru háar eða lágar, sem Seðlabankinn stýrir út af fyrir sig sjálfur að sumu leyti; það skiptir engu máli hvað umhverfið segir. Seðlabankamenn eru bara í búblu eins og fólk sem er með bælt ónæmiskerfi. Það kemst enginn að þeim og þeir vita ekki hvað gerist fyrir utan þessa búblu, ekki nokkurn skapaðan hlut virðist vera.

Það var einmitt það sem hæstv. fjármálaráðherra sagði hér um daginn í fjárlagaumræðunni. Hann sagði: Við höfum ekki alltaf öll þau tól sem við ættum og þyrftum að hafa þegar við tökum ákvarðanir. Ég sagði við hann: Þetta bara blasir við þegar maður les yfir ályktanir Seðlabankans um leið og hann kynnir óbreytta stýrivexti. Þar eru menn ekki með nokkrar einustu hagstærðir á hreinu, virðist vera. Meinið nær víða. Þessi hugsun, um að hér verði að vera óbreytt verðtrygging, er inngróin í allt kerfið alveg upp í Seðlabanka Íslands. Þar eru menn náttúrlega með belti og axlabönd og almenningur borgar og þeim er alveg sama.

Það er mjög athyglisvert sem hér hefur verið rætt, og kemur fram í greinargerðinni á bls. 4, að verðbólgumælingar séu yfirleitt ofmetnar. Fyrir nokkrum árum var umræða hér á milli einhverra hv. þingmanna um að við hér á Íslandi mundum láta gera sérstaka könnun á verðbólgumælingu á Íslandi, hvað hún væri nákvæm og hvort hún hefði, eins og t.d. hefur komið upp í Ameríku og kom fram í ræðum áðan, verið ofmetin. Munurinn er bara sá að vestur í Ameríku, þó að verðbólgan sé ofmetin í mælingum, eru menn ekki að glingra í því að hækka vexti eða halda vöxtum mjög háum, alls ekki. Á Íslandi, eina landinu fyrir utan eitt í Suður-Ameríku og eitt við Miðjarðarhafsbotn ef ég man rétt, kemur þetta aftur á móti strax fram. Þetta kemur bara í næstu tilkynningu bankans, hækkun á afborgun strax, lánið hækkar strax.

Þetta mál hér er mjög gott skref í þá átt að við fáum hér réttlátara kerfi.

Það er rétt, sem menn hafa sagt hér í ræðum á undan, að það gengur náttúrlega ekki að lánveitandinn sé alltaf stikkfrí. Í sjálfu sér er samband lánveitenda og lántakenda á Íslandi nokkurs konar ofbeldissamband. Bankakerfið hefur öll tök á þeim sem skuldar sitt fasteignalán, öll tök, og getur með einu pennastriki ráðið örlögum manna til góðs eða ills. Þetta er algjörlega óþolandi staða til þess að vera í.

Ég vona því að þeir þingmenn annarra flokka sem hér sitja, og taka kannski ekki þátt í umræðunni en hlýða á þessa umræðu, finni einhvers staðar í sálarfylgsnum sínum kjark til að koma með í þá vegferð sem hér er boðuð og taka á þessari ár með okkur; taka á með 100 þús. heimilum í landinu og taka á með alþýðu þessa lands sem bankakerfið níðist á á hverjum einasta degi og taka á með þeim ungmennum sem nú eru að undirbyggja sig fyrir lífið fram undan og geta ekki hugsað sér að setjast að á Íslandi út af því hvernig kerfið er.

Við höfum ekki efni á því, Íslendingar, að þetta unga fólk komi ekki hingað heim og taki á með okkur í því að byggja hér upp framtíðarþjóðfélag. Við höfum ekki efni á því. Við getum ekki eitt eða tvö ár í viðbót lamið hausnum við steininn og neitað að taka á þessum hlutum eins og fólk. Við getum það ekki. Ef bankakerfið á Íslandi ræður ekki við þetta og stjórnendur þess þurfum við einfaldlega að bylta því kerfi þannig að það ráði við þetta og ráða til þess kerfis fólk sem ræður við þetta verkefni af því að ekki verður undan því vikist. Við getum ekki horft upp á það núna mörg ár í viðbót að missa úr landi vel menntað ungt fólk sem getur ekki hugsað sér að setjast hér að og verða eins og einhver útvörður í norðrinu, láglaunasvæði þar sem fólk sem hefur góða menntun og góða framtíðarmöguleika kærir sig ekki um og getur ekki hugsað sér að setjast að. Við höfum ekki efni á því.

Þetta mál er kannski skref í þá átt að við getum styrkt þetta þjóðfélag til vaxtar og við getum unnið það mesta sem við getum úr þeim miklu auðæfum sem hér er að finna og að við getum skapað mannauðnum — sem eru mestu verðmætin sem við eigum — þau skilyrði að hann geti hugsað sér að setjast hér að. Þá væri vel farið ef menn finna hjá sér kjark til að styðja þetta mál. Þetta mál er mjög gott, herra forseti. Ég styð það heils hugar.