149. löggjafarþing — 5. fundur,  17. sept. 2018.

vextir og verðtrygging.

16. mál
[19:32]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Herra forseti. Ég held að það sé alveg óhætt að slá því föstu að ég og flutningsmenn þessa frumvarps erum sammála um að vaxtastig hér á landi sé allt of hátt. Vonandi erum við öll tilbúin til þess að grípa til þeirra ráðstafana sem til þarf til þess að ná vaxtastiginu niður. Það væri líka mjög óskandi að við værum ekki með það umhverfi hér sem gerir að verkum að við erum svona múlbundin verðtryggingu eins og við erum.

Að því sögðu þá held ég að við séum ekki mjög sammála um margt sem í þessu stendur. Þegar ég horfi yfir þetta mál velti ég því fyrir mér sem mér hefur fundist því miður einkenna þessa umræðu allt of lengi, að það er aldrei horft á rót vandans. Af hverju er vaxtastigið hátt? Lægri vextir á hinum Norðurlöndunum, húsnæðisvextir, og sú staðreynd að þar er verðtryggingu ekki að finna er ekki vegna þess að það sé bannað með lögum. Það er ekki vegna þess að þing þessara landa hafi verið svo skynsöm að setja vöxtum hámark í lögum eins og hér er lagt til að sé gert heldur vegna þess að þessi sömu lönd hafa fyrir löngu tekið á hagstjórnarvandanum sem þau glímdu við, svipuðum þeim og við höfum glímt við. Þau hafa lært af fyrri mistökum og bætt úr og tryggt það að vaxtastig sem í eina tíð var þar mjög hátt, líka á húsnæðislánum til almennings, er orðið á pari við það sem gengur og gerist á meginlandi Evrópu, svo dæmi sé tekið.

Þetta var ekki leyst með lagasetningu. Við höfum reynt áður að leysa vaxtamál með lagasetningu. Við höfum sett vöxtum hámark með lagasetningu, það fór ekkert sérstaklega vel. Menn fundu einfaldlega aðrar leiðir. Það sem algjörlega láist að nefna, finnst mér, í greinargerð þessa frumvarps er að velta fyrir sér hverjar afleiðingarnar yrðu af því að setja vöxtum hámark með lögum. Mun það lækka vexti? Nei, það mun ekki lækka vexti. Hér er t.d. sett hámark á verðtryggða vexti, gott og vel. Þýðir það þá ekki, í umhverfi hás vaxtastigs, að óverðtryggð lán verða væntanlega áfram með mjög háa vexti? Háa vaxtastigið verður áfram grunnvandamál.

Við erum með óverðtryggða vexti í dag á húsnæðislánum en þeir eru bara mjög háir og fólk velur frekar verðtryggðu vextina en óverðtryggðu í frjálsu markaðsvali í frjálsu umhverfi. Neytendur eru ekki skikkaðir til að taka verðtryggð lán, þeir geta tekið óverðtryggð lán til húsnæðiskaupa til jafn langs tíma og verið er að bjóða upp á í verðtryggðu umhverfi en það er einfaldlega hagkvæmara að taka verðtryggðu lánin og þess vegna velur fólk verðtryggð lán og hefur valið þau í auknum mæli á undanförnum árum. Hvort sem það er síðan skynsamlegt til lengri tíma eða ekki er ómögulegt að segja. Við vitum ekki aldrei, ekki frekar en fyrri daginn hver verðbólga verður hér þegar fram í sækir og auðvitað hefur það komið fólki mjög illa í koll með þessi verðtryggðu lán þegar verðbólga gýs upp eins og hún gerir gjarnan hér með reglulegu millibili.

Enn og aftur: Hvar liggur rót vandans? Hún liggur í hagstjórninni. Hún liggur í því að við missum alltaf tökin á efnahagslífinu hjá okkur með reglulegu millibili. Gengið fellur, verðbólga rýkur upp, verðtryggð lán með og óverðtryggðu vextirnir fara upp líka.

Ég óttast það að hér sé enn og aftur verið, ef mætti nota þá myndlíkingu, að ávísa magnýl á krabbamein. Þetta leysir ekki vandann. Þetta leysir ekki hátt vaxtastig á Íslandi, þetta mun einfaldlega beina fjármagni til húsnæðislána almennings í annan farveg en hann er í dag, annan farveg en fólk hefur kosið að fara með lánin sín í. Það verður væntanlega þvingað í óverðtryggð lán í staðinn, áfram á háum vöxtum, af því að við höfum ekki tekið á grunnvandanum. Af hverju er vaxtastigið svona hátt? Það er hagstjórnin, óstöðug mynt, þessi grunnvandamál sem við erum alltaf að glíma við sem nágrannar okkar tóku á með góðum árangri og hefur skilað þeim lágu vaxtastigi.

Ég verð að segja eins og er, eins meinilla og mér er við verðtryggingu, eins meinilla og mér er við þetta háa vaxtastig sem er hérna og eins hjartanlega sammála og ég er mörgu því sem hér hefur komið fram um að við getum ekki til lengdar boðið ungu fólki upp á þetta háa vaxtastig og þennan óstöðugleika og við verðum að taka á vandanum, þá er hér ár eftir ár, áratug eftir áratug, boðið upp á einhverjar gervilausnir á vandanum. Málinu er drepið á dreif með einhverjum tillögum um að banna verðtryggingu, setja vöxtum hámark, prófa eitthvað annað með boðum og bönnum sem aldrei hefur virkað fyrir okkur. Eini árangurinn sem þetta hefur haft er að stór hluti fólks trúir því að það sé einhver lausn að setja lög á verðtryggingu en ekki ráðast að rót vandans, spurningunni um af hverju vextir eru svona háir.

Ég er engu bættari með húsnæðislánið mitt, ef það er bannað að hafa það verðtryggt, ef ég þarf að borga af því svimandi háa óverðtryggða vexti. Ég er reyndar sennilega verr staddur til lengri tíma litið því að eðli verðtryggða jafngreiðslulánsins hefur jú verið hingað til að það dreifir greiðslubyrðinni af þessu gríðarlega háa vaxtastigi. Kannski sæjum við líka það sem við sáum gerast á húsnæðismarkaði á árum áður, að húsnæðisverð hækkaði af því að á húsnæðinu hvíldi hagstætt lán sem var kannski búið að banna með einhverjum hætti síðar eða hvað það var. Þá fór það að hafa áhrif á fasteignaverð hvort það væru góð lán á fasteigninni eða slæm lán á fasteigninni.

Boð og bönn eru ekki lausn í þessu samhengi. Ég vildi óska að flutningsmenn þessa frumvarps kæmu með okkur í þá vegferð að ráðast að rót vandans, að rót þessa háa vaxtastigs sem við glímum við, sem er enn og aftur hagstjórnin, hagstjórnin, hagstjórnin og kannski þessi örmynt sem við fljótum einhvern veginn á í öllum þessum ólgusjó.

Nágrannaríkjum okkar tókst að leysa þetta, hvert með sínum hætti, og það skapaði þeim sambærileg vaxtakjör og á meginlandi Evrópu. Við getum sagt að flest hafi þau valið að hafna sjálfstæðri peningastefnu, hvort sem horft er til Finna sem tóku upp evru, Dana sem festu gengi dönsku krónunnar við evru eða Svía sem fylgja í raun evru, getum við sagt, í sinni peningastjórn. Öll hafa þessi lönd náð mjög hagstæðu vaxtastigi. Þetta frumvarp er hins vegar ekki lausnin og ég held því miður að skaðsemi svona hugsunar geti orðið meiri en sá góði ásetningur sem ég veit að fylgir þessu, þ.e. ef við erum að fara að þvinga fólk yfir í t.d. óverðtryggð lán á háum vöxtum af því að við erum búin að setja eitthvert hámark á verðtryggða vexti. Það er nefnilega eðli máls á frjálsum markaði að það er ekki hægt að þvinga fjármagnseigendur til þess að lána fé í einhver tiltekin lánaform. Í því frjálsa markaðshagkerfi sem við búum í þá megum ekki gleyma því að á hinni hliðinni standa oft t.d. lífeyrissjóðirnir, okkar eigin sparnaður, sem veita þessi lán. Þeim er sjálfsvald sett hvort þeir lána yfir höfuð inn á fasteignamarkaðinn eða hvort þeir kjósa að bjóða eingöngu upp á óverðtryggð lán af því að það er búið að setja vaxtaþak á verðtryggðu lánin eða með hvaða hætti þetta leitar einhvers jafnvægis.

Allar þær tilraunir sem við höfum prófað áður í þessum efnum hafa sýnt okkur að þegar við reynum með boðum og bönnum að taka á vandamáli sem er í grunninn hátt vaxtastig í landinu þá bara virkar það ekki og býr oft til meiri vandamál en það vandamál sem við erum að reyna að leysa var fyrir. Það hefur oft á tíðum, ef við horfum til fortíðar, búið til einhvers konar svartan markað með fjármagn. Það þrýstir fjármagni út í einhverja aðra farvegi eða menn fara í eitthvert skítamix, afsakið, herra forseti, til þess að komast fram hjá bannákvæðum laganna.

Við verðum að horfast í augu við að grunnvandinn er alltaf sá sami. Við erum með hátt vaxtastig í þessu landi. Það er það sem við þurfum að leysa, við þurfum ekki boð og bönn um það hvaða lán megi bera hvaða vexti.