149. löggjafarþing — 5. fundur,  17. sept. 2018.

vextir og verðtrygging.

16. mál
[19:41]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hlusta alltaf með athygli þegar hv. þm. Þorsteinn Víglundsson ræðir þessi mál. Hann ræðir þau af þekkingu og með tiltölulega opnum huga, nema það að hann er fastur í viðjum evrunnar. Þess vegna skautaði hann fram hjá Noregi hér áðan þegar hann taldi upp Norðurlöndin. Hann gleymdi Noregi, sem rekur sjálfstæða peningamálastefnu. Ég veit að Norðmenn eru 15 sinnum fleiri en við, þeir eiga svolítið af olíu. En við eigum líka fullt af auðlindum sem við getum notað okkur til hagsbóta, þannig að ég held að það sé út af fyrir sig engin afsökun að gera ekki neitt bara út af því að boð og bönn, eins og hv. þingmaður sagði, hefðu ekki virkað hér áður. Hann talaði um frjálst kerfi en fjármálakerfið á Íslandi er fákeppniskerfi. Það er ekkert frelsi ríkjandi þar. Það er enginn samkeppni ríkjandi þar. Það er ekki nokkur einasti bankamaður sem bankar á dyrnar hjá manni og segir: Heyrðu, þú ert þokkalega settur maður á virðulegum aldri, búinn að borga svolítið niður, þú færð betri vexti. Ekki nokkur kjaftur. Ekki séns.

Ég spyr því hv. þingmann hvort hann telji að Norðmenn hafi farið villir vegar með því að halda í sína mynt. Þeir eru samt með þetta 1,75–2,5% vexti á fasteignalánum. Það skiptir engu máli hvort norska krónan hefur lækkað um 20–25%, eins og hún hefur gert á undanförnum misserum, eða hvort hún hækkar.

Ég er hins vegar alveg sammála hv. þingmanni um að auðvitað er það hagstjórnin hér sem skiptir virkilega miklu máli og mestu máli. Menn hafa eiginlega aldrei haft kjark til þess að ganga inn í það mál af fullu afli. Hvernig á að gera það? Við getum kannski ekkert orðið sammála um það við nafnarnir, en ekki er þar með sagt að á einhverjum tímapunkti þurfi ekki að stíga inn. Mér finnst þetta skref í þá átt og ég spyr hv. þingmann hvers vegna honum þyki þetta (Forseti hringir.) svona ómögulegt. Hér er þó alla vega gerð tilraun til þess að stíga inn í þetta kerfi sem er búið að vera hér eins og hundur að elta skottið á sjálfum sér í 40 ár.