149. löggjafarþing — 5. fundur,  17. sept. 2018.

vextir og verðtrygging.

16. mál
[19:46]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þetta svar sem var glöggt og gott eins og hans er von og vísa. Mig langar aðeins til að fara aftur ofan í þetta sem ég talaði um, fákeppni á bankamarkaði og hvernig bankar á Íslandi haga sér yfirleitt. Þetta er reyndar mál sem ég á eftir að taka upp af meiri þunga á næstu vikum en ekki bara hér í þessu stutta andsvari.

Svo er mál með vexti að íslenska þjóðin á 98,3% í banka sem heitir Landsbanki Íslands og er núna hlutafélag. Þessi banki er, þegar bankastarfsemi er að breytast í það að menn séu bara í heimabankanum sínum að mestum parti, að byggja höfuðstöðvar á dýrustu lóð Íslands. Hvers vegna? Það er algjörlega hulið. Jú, þarna á að vera einhver bakvinnsla.

Herra forseti. Bakvinnsla banka gæti verið á Raufarhöfn þar sem fasteignaverð er mjög lágt, svo að ég nefni dæmi. Gæti verið á Patreksfirði, hvar sem er. Hún þarf ekki að vera hér í hjarta Reykjavíkur. Þess vegna spyr ég hv. þingmann: Þykir honum líklegt að við náum árangri í því að lækka vexti á Íslandi meðan fjármálastofnanir fara fram með þessum hætti? Þykir hv. þingmanni líklegt að við náum árangri í því að lækka vexti? Ég tek reyndar aðeins ofan fyrir lífeyrissjóðunum því það er alveg hárrétt, sem hv. þingmaður sagði, að þeir hafa lækkað vexti á verðtryggðum húsnæðislánum verulega. Engu að síður eru þessir ágætu sjóðir með ávöxtunarkröfu sem er langt umfram það sem menn þekkja annars staðar. Hvers vegna? Hugsanlega vegna þess að þeir eru 25 eða 27, gætu verið þrír eða fjórir. Rekstrarkostnaðurinn er í kringum 7 til 10 milljarðar á ári, ef ég man rétt. Það mætti líklega skera niður um helming með sameiningum o.s.frv.

Á meðan fjármálakerfin á Íslandi eru svona þá spyr ég hv. þingmann hvort hann sé ekki sammála mér í því að hluti af vandanum (Forseti hringir.) liggi kannski í því að fjármálakerfið er of stórt og óskilvirkt.