149. löggjafarþing — 6. fundur,  18. sept. 2018.

störf þingsins.

[13:33]
Horfa

Heiða Guðný Ásgeirsdóttir (Vg):

Herra forseti. Af nógu er að taka þegar kemur að bættum búsetuskilyrðum á landsbyggðinni en í nútímanum er það svo að góðar nettengingar, liprar samgöngur og tryggt afhendingaröryggi rafmagns eru grunnskilyrði til þess að gera svæði aðlaðandi til búsetu. Afhendingaröryggi rafmagns er mjög breytilegt milli landsvæða og orkufyrirtæki, bæði í ríkis- og einkaeigu, nýta sér það óspart sem þrýstiaðferð, bæði á einstaklinga og sveitarstjórnir.

Íbúum landsvæða þar sem afhendingaröryggi er lélegt er sagt að til að fá viðunandi rafmagn þurfi að virkja innan svæðanna, burt séð frá því hvort um er að ræða landsvæði sem eru ósnortin af slíkum mannvirkjum eður ei. Sveitarfélögin eiga sem sagt eftir þessu að selja náttúru sína fyrir aðgengi að rafmagni, náttúru sem í mörgum tilfellum laðar að ferðamenn sem aftur skila svo peningum til ríkisins.

Þessi nálgun er í besta falli vafasöm. Ég minni á það, herra forseti, að við erum ein þjóð í einu landi og það er stjórnvalda að tryggja öllum landsmönnum sömu grunnþjónustu. Það er stjórnvaldsákvörðun hvað gert er við það rafmagn sem framleitt er í landinu. Í dag er framleitt nóg rafmagn til að knýja flórsköfur og þvottavélar í Skaftárhreppi og rúningsklippur á Vestfjörðum. Vandamálið er hversu illa gengur að flytja rafmagnið og tryggja að það sé til staðar þegar á því þarf að halda og því vill drepast á mjaltavélum og hitakútum fyrir 60 hótelsturtur þegar verst gegnir, en þegar að þessu kemur benda ríkisfyrirtækin hvert á annað.

Ég var á fundi með stjórn og talsmönnum Rariks í lok ágúst og í máli þeirra kom fram að það væri sveitarstjórnarfólks að þrýsta á pólitíkina um að arðgreiðslur Rariks færu í uppbyggingu og endurnýjun dreifikerfisins. Einnig væri þeirra að þrýsta á um auknar arðgreiðslur frá Landsvirkjun og þrýsta á pólitíkina að herða á Landsneti við uppbyggingu dreifikerfis.

Af hverju þarf að vera að þrýsta á um þetta einhvers staðar baka til, þrjú fyrirtæki að hluta eða öllu leyti í eigu ríkisins, öll með svipuð verkefni, sama grunnmarkmið? Enn og aftur, við erum ein þjóð í einu landi. Ég hvet þingheim til að íhuga alvarlega það hlutverk sitt að tryggja öllum íbúum þessa lands sambærilega grunnþjónustu.

Það þarf að hlífa einstaklingum við því að finnast skylda sín að láta land sitt í skiptum fyrir sömu lífsskilyrði og þykja sjálfsögð annars staðar í sama landi og að láta sveitarstjórnarfólk taka ákvarðanir um framkvæmdaleyfi virkjana út frá breiðara sjónarhorni en dreifikerfi rafmagns. Þessi brýna þörf úrbóta þar verður óeðlilega plássfrek í rökum fyrir ákvarðanatöku á kostnað annarra þátta. Eins þarf að hlífa sveitarstjórnum við þeirri niðurlægingu að þurfa (Forseti hringir.) við hvert gefið tækifæri að stinga augun úr nágrannasveitarfélögum sínum við að reyna að sýna fram á nauðsyn þess að fá forgang að þjónustu sem ætti í nútímanum ekki að þurfa að berjast um.