149. löggjafarþing — 6. fundur,  18. sept. 2018.

störf þingsins.

[13:35]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg):

Herra forseti. Það hefur verið afstaða Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs um árabil að þegar kemur að almannaþjónustu, heilbrigðisþjónustu, menntamálum og fleiru eigi ekki að vera um það að ræða að ríkið geri samninga sem tryggja þeim einstaklingum sem standa að baki fyrirtækinu eða fyrirtækjunum eða fyrirtækjasamsteypum arð úr ríkissjóði. Það þýðir ekki að Vinstri græn séu á móti einkarekstri í heilbrigðisþjónustu, séu á móti einkarekstri í menntakerfinu. Síður en svo. Við viljum hins vegar að það sé alveg á hreinu að ekki sé verið að nota takmarkað almannafé til þess að greiða arð út úr fyrirtækjum sem veita slíka þjónustu.

Hv. þingmenn hafa örugglega einhvern tímann heyrt hugtakið „non profit“ í þessu sambandi og mjög stór hluti þeirra heilbrigðisþjónustufyrirtækja sem eru á Íslandi eru í raun slík fyrirtæki. Vinstri græn telja að ef menn vilja standa í heilbrigðisþjónustu á Íslandi verði þeir að átta sig á því að það er ákveðinn markaðsbrestur í því að selja heilbrigðisþjónustu vegna þess að staða kaupanda og seljanda er alltaf mjög ójöfn. Kaupandinn er yfirleitt ekki í neinni stöðu til að segja að hann þurfi eða þurfi ekki einhverja tiltekna þjónustu vegna þess að sá sem veitir þjónustuna er alltaf í yfirburðastöðu gagnvart kaupandanum.

Þess vegna er miklu nær að hugsa málin þannig að verði einhvers konar ábati eða ávinningur af slíkum fyrirtækjum sé hann notaður inni í fyrirtækinu til að bæta þjónustuna, bæta hag fyrirtækisins, bæta laun starfsmanna og fjölga þeim sem fá þjónustu.

Vinstri græn hafa nú flutt frumvarp á Alþingi í þá veru þar sem er gert ráð fyrir að ráðherra fái heimild til að setja það sem skilyrði í samninga um heilbrigðisþjónustu að ekki sé gerð arðsemiskrafa í fyrirtækjunum. (Forseti hringir.) Vinstri græn munu halda þessu máli mjög á lofti í vetur.