149. löggjafarþing — 6. fundur,  18. sept. 2018.

störf þingsins.

[13:40]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Undir liðnum um störf þingsins ætla ég að ræða störf þingsins. Ég ætla að byrja á því sem m.a. hefur verið til umræðu í forsætisnefnd, og er nú til umræðu í fjölmiðlum, um samantekinn kostnað við þingfundinn á Þingvöllum. Þar kemur fram, eins og birt hefur verið opinberlega á vefnum, að pallar og gangvegir, efni og vinna, hafi kostað 40 milljarða. (Gripið fram í: Milljarða?) Nei, ekki milljarðar, þá fyrst væri þetta algjört fíaskó, þá fyrst. [Hlátur í þingsal.] Þá væri það eitthvað til að hrópa húrra fyrir, að menn hefðu getað eytt peningunum svona vel. Nei. Lýsingin var síðan 22 milljónir, fór eitthvað umfram. Það urðu umræður um þetta í nefndinni og sjálfsagt að birta opinberlega þær tölur.

Við Píratar óskuðum eftir því, og ég hef sent þann ítrekunarpóst á þingforseta, og vísa í ósk mína undir dagskrárliðnum, að fá samninga Alþingis í tengslum við þann þingfund við þá aðila sem framkvæmdu þessa hluti. Þá getum við kannski farið að glöggva okkur á því hvers vegna þetta fór svona langt umfram. Var það ekki skýrt í samningunum hvað ætti að gera o.s.frv.?

Svo eru það þessir pallar upp á 40 milljónir — það kom fram í umræðum í nefndinni að þeir eru víst ekki neitt sem við eigum og getum notað aftur. Þó er hægt að nota þá aftur en það er þá einhver aðili sem getur leigt öðrum þá.

Fáum þetta allt upp á borðið. Kannski er þetta allt saman í himnalagi og hið besta mál nema náttúrlega það að misreikna sig svona svakalega í kostnaði, það þarf alla vega að laga eitthvað þar.

Ég óskaði eftir lögfræðiáliti á sumarfundi forsætisnefndar í ágúst varðandi annað atriði sem tengist Þingvallafundinum. Ég óskaði eftir lögfræðiáliti um það hvort aðrir en þingmenn, kjörnir af þjóðinni, forsetinn og íslenskir ráðherrar megi ávarpa Alþingi. Nefndasvið Alþingis hafði sagt hv. þm. Birni Leví Gunnarssyni að breyta þyrfti stjórnarskránni til að hann gæti fengið mál sitt samþykkt sem var þess efnis að almenningur gæti komið hingað inn öðru hvoru, slembivalið, og ávarpað okkur. Málið var hugsað til að fá venjulegt fólk hingað inn til að segja okkur að við þurfum kannski að horfa út fyrir rammann. Það er hætta á því í öllum skipulagsheildum að fólk festist inni í sinni kúlu. Hv. þm. Birni Leví Gunnarssyni var sagt að breyta þyrfti stjórnarskránni en svo kemur á daginn að það þarf ekki að breyta henni. Í lögfræðiáliti frá skrifstofu Alþingis, sem forseti hefur nú lagt fram og birt opinberlega, segir að það megi.

Ef hv. þm. Björn Leví Gunnarsson leggur svona mál fram er hægt, ef Alþingi ákveður það, að hleypa almenningi hingað inn að ræða málin. Það mætti þá ekki vera partur af þingstörfunum (Forseti hringir.) en það að ávarpa þingfund er heimilt samkvæmt stjórnarskránni.