149. löggjafarþing — 6. fundur,  18. sept. 2018.

störf þingsins.

[13:50]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S):

Virðulegi forseti. Ég hef gert það að vana mínum að koma hér í upphafi þings að hausti, áður en við byrjum að ræða fjárlögin til hlítar, að tala um mikilvægi umferðaröryggis og kostnað samfélagsins af umferðarslysum.

Þess vegna vildi ég minna á skýrslu sem Samgöngustofa gaf út fyrir ekki svo löngu þar sem komið var inn á að slys í umferðinni hafi kostað samfélagið um 500 milljarða á tíu ára tímabili. Ég held að við ættum að hafa þetta í huga núna þegar við förum að ræða fjárlögin og út af þessu hef ég komið hingað reglulega upp til að minna á það að samgöngumálin í heild sinni eru eitt stærsta velferðarmálið okkar, velferðarmál númer eitt, sem hjálpar okkur svo mikið við að byggja upp velferðarsamfélagið.

Þetta kom líka fram í svari heilbrigðisráðherra til mín þegar ég spurði um kostnað ríkisins af umferðarslysum. Þá kom nákvæmlega sama tala út og er til hér í þingskjölum. Þetta kemur líka svo glöggt í ljós eins og hv. þm. Heiða Guðný Ásgeirsdóttir kom inn á áðan hvað innviðirnir skipta miklu máli. Þeir skipta gríðarlega miklu máli og hvað það er sem hefur tryggt velgengni okkar í hagkerfinu og þannig að við getum staðið undir þeirri velferð sem hefur verið undanfarið. Það er samgöngumannvirki, samgöngumannvirkið Keflavíkurflugvöllur. Ef við hefðum ekki haft það samgöngumannvirki hvernig væri staðan á Íslandi þá? Hvernig væri hún þá?

Við þurfum að setja fókusinn á að byggja upp innviðina, bæði til að draga úr kostnaði samfélagsins og líka til að auka styrk samfélagsins til að byggja hér upp velferðarsamfélag. Þetta skulum við hafa á hreinu núna þegar við ræðum fjárlögin.