149. löggjafarþing — 6. fundur,  18. sept. 2018.

störf þingsins.

[13:57]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Skólar landsins hafa nú tekið til starfa á ný. Á sama tíma er það óumdeilt að íslenskt menntakerfi er í lægð. Það gerðist ekki á einni nóttu að fjaraði undan menntamálum á Íslandi heldur hafa þau verið vanrækt af stjórnvöldum árum saman og rangar ákvarðanir gert stöðuna enn verri. Öðrum fremur ber Sjálfstæðisflokkurinn ábyrgð á því hvernig komið er fyrir okkur í þessum mikilvæga málaflokki. Síðustu 27 árin hefur Sjálfstæðisflokkurinn verið 22 ár í menntamálaráðuneytinu. Stytting framhaldsskólans úr fjórum árum í þrjú er eitt af síðustu afrekum Sjálfstæðismanna í menntamálum. Sífellt fleirum er ljóst hvers mikið ólán þessi ákvörðun var fyrir íslenskt menntakerfi. Hún fól í sér gengisfellingu stúdentsprófsins. Inntökupróf í háskóla eru orðin mun algengari vegna þess að stúdentsprófið er ekki lengur nein trygging fyrir undirbúningi fyrir háskólanám.

Áreiðanlegar kannanir á borð við PISA hafa sýnt að stór hluti þeirra sem ljúka grunnskóla á Íslandi getur ekki lesið sér til gagns. Þrátt fyrir það fara flestir þeirra í framhaldsskóla sem síðan er búið að stytta um eitt ár.

Stytting framhaldsskólans hefur aukið álag á nemendur, valdið meiri streitu, minnkandi námsánægju og vaxandi andlegri vanlíðan. Auk þess hefur hún dregið úr íþróttaiðkun og tómstundum nemenda. Styttingin kom verulega niður á félagslífi framhaldsskólanema en félagslífið hefur ávallt verið mikilvægur þáttur menntaskólaáranna og mikilvægt tímabil félagsþroska.

Þessi vanhugsaða ákvörðun hefur ofan á allt þetta valdið því að fleiri nemendur hafa flosnað upp úr námi.

Herra forseti. Ég hvet hæstv. menntamálaráðherra til að vinda ofan af þessum slæmu mistökum Sjálfstæðismanna í menntamálum og endurreisa fjögurra ára framhaldsskólanám.