149. löggjafarþing — 6. fundur,  18. sept. 2018.

störf þingsins.

[14:00]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V):

Herra forseti. Mig langar að nefna tvær framkvæmdir. Önnur þeirra fólst í því að endurbæta bragga, náðhús og skála hér í borgarlandinu. Hin framkvæmdin fólst í því að halda fund í nágrenni höfuðborgarinnar.

Áætlaður kostnaður endurbóta á bragganum í landi borgarinnar var 158 milljónir en þegar upp var staðið kostaði bragginn 415 milljónir. Fundurinn í nágrenni höfuðborgarinnar átti að kosta 45 milljónir en þegar upp var staðið kostaði hann 87 milljónir. Í tilfelli braggans mátti margfalda upphaflega kostnaðaráætlun með rúmlega 2,6 og þegar fundurinn átti í hlut mátti margfalda upphaflega áætlun með 1,93.

Mönnum er nokkur vorkunn þegar ráðist er í stórframkvæmdir, boruð eru göng, lagðir vegir eða byggðar stórar brýr, þó að ekki sé hægt að sjá fyrir alla hluti. Það er minni vorkunn þegar ráðist er í að laga bragga, jafnvel þótt hann kunni að vera fúnari en áætlanir gerðu ráð fyrir, hvað þá að halda fund jafnvel þótt hátíðlegur sé og á okkar merkasta stað í landinu.

Hér er eitthvað verulega mikið að og ég held að við verðum að vinda bráðan bug að því að lagfæra þetta. Sem betur fer hafa nú verið lagðar fram tillögur, samþykktar hér af öllum þingheimi, um að bæta verklag við opinberar framkvæmdir (Forseti hringir.) og nú er ekkert annað en að drífa í því að koma þeim til framkvæmda.