149. löggjafarþing — 6. fundur,  18. sept. 2018.

ýmsar aðgerðir í samræmi við forsendur fjárlaga 2019.

2. mál
[14:09]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um ýmsar aðgerðir í samræmi við forsendur fjárlaga fyrir árið 2019. Með frumvarpi þessu eru lagðar til ýmsar breytingar á skattalögum sem eru óaðskiljanlegur hluti af forsendum fjárlaga fyrir árið 2019. Annars vegar er um að ræða breytingar á lögum um tekjuskatt og hins vegar lögum um tryggingagjald og hyggst ég nú fjalla um efnisatriði þeirra.

Þá er í fyrsta lagi að nefna að í frumvarpinu er lagt til að fjárhæðarmörk milli neðra og efra þreps tekjuskattsstofns breytist í samræmi við breytingar á vísitölu neysluverðs næstliðinna 12 mánaða miðað við gildandi vísitölu við upphaf og lok viðmiðunartímabils, þ.e. frá desember til desember, í stað launavísitölu eins og hingað til. Um er að ræða sambærilega tengingu og gildir um persónuafslátt. Í forsendum fjárlagafrumvarpsins er miðað við að vísitala neysluverðs hækki um 3% frá desember 2017 til desember 2018. Það þýðir, verði frumvarpið að lögum, að viðmiðunarmörk tekna í efra skattþrepi fara úr 893.713 kr. í 920.524 kr. á mánuði samanborið við 947.336 kr. á mánuði þegar miðað er við áætlaða hækkun launavísitölu um 6% frá nóvember 2017 til nóvember 2018.

Þá er lagt til að á árinu 2019 verði persónuafsláttur hækkaður um 1% umfram lögboðna hækkun í samræmi við vísitölu neysluverðs. Um er að ræða einskiptishækkun við staðgreiðslu á árinu 2019 og við álagningu opinberra gjalda á árinu 2020. Miðað við forsendur fjárlaga ætti persónuafsláttur því að hækka úr 53.895 kr. í 56.067 kr. á mánuði, þ.e. rúmlega 4%. Það þýðir að skattleysismörkin, að teknu tilliti til útsvars og 4% iðgjalds í lífeyrissjóð, hækka úr 151.978 kr. í 158.103 kr. á mánuði, þ.e. um 4%. Að útsvarinu slepptu hækka skattleysismörkin úr tæplega 250.000 í 260.000 kr. á mánuði, en við þau mörk fær ríkissjóður meiri tekjur af tekjuskattinum en sem nemur fjármögnun persónuafsláttarins.

Samanlögð áhrif þessara breytinga eru áætluð um 1,7 milljarðar kr. til lækkunar á tekjuskatti einstaklinga á ársgrundvelli. Þær breytingar hafa ekki áhrif á tekjur sveitarfélaga af útsvari.

Í öðru lagi eru í frumvarpinu jafnframt lagðar til viðbótarhækkanir á tekjuviðmiðunum barnabóta umfram forsendur fjármálaáætlunar sem komi til framkvæmda við álagningu opinberra gjalda á árinu 2019. Við álagningu opinberra gjalda á einstaklinga í júní sl. voru árleg tekjumörk einstæðra foreldra við ákvörðun barnabóta 2,9 millj. kr. miðað við tekjur ársins 2017. Í frumvarpinu er lagt til að þau mörk fari úr 2,9 millj. kr. í 3,6 millj. kr., hækki um rúmlega 29% milli áranna 2017 og 2018, og verði þar með viðmið við ákvörðun barnabóta á árinu 2019.

Tekjumörk hjá hjónum og sambýlisfólki verða tvöfalt hærri, þ.e. fara úr 5,8 millj. kr. á ári í 7,2 millj. kr. Jafnframt verða tekjutengdar barnabætur með hverju barni undir 18 ára aldri hækkaðar um 5%. Til að tryggja að framangreindar breytingar gangi ekki upp allan tekjuskalann, heldur gagnist fyrst og fremst þeim fjölskyldum sem hafa lægri tekjur, er hert á tekjuskerðingu barnabótanna þegar tilteknu tekjumarki er náð. Samkvæmt gildandi lögum er tekjuskerðingarhlutfall barnabóta 4% með einu barni, 6% með tveimur börnum og 8% með þremur börnum eða fleiri þegar tekjurnar fara umfram tekjuskerðingarmörkin.

Í frumvarpinu er hins vegar lagt til að skerðingarhlutföllin hækki þegar tilteknum tekjum er náð, þ.e. 5,5 millj. kr. hjá einstæðu foreldri og 11 millj. kr. hjá hjónum og sambýlisfólki. Yfir þeim mörkum verði skerðingarhlutföllin 5,5% með einu barni, 7,5% með tveimur börnum og 9,5% með þremur börnum. Engar breytingar eru lagðar til á skerðingarhlutfalli tekjutengdra barnabóta með börnum yngri en sjö ára sem nú er 4% en lagt er til að bótafjárhæðin sjálf hækki á sama hátt og aðrar barnabætur um 5%.

Verði framangreindar tillögur samþykktar óbreyttar er talið að heildarútgjöld ríkissjóðs vegna barnabóta hækki úr 10,3 milljörðum kr. á þessu ári í 12,1 milljarð á árinu 2019. Það svarar til 17,5% hækkunar milli ára, um 14% að raungildi.

Virðulegi forseti. Í lok árs 2010 voru gerðar margvíslegar breytingar á útreikningsreglum vaxtabóta. Þær reglur áttu að gilda í tvö ár en hafa síðan verið framlengdar óbreyttar ár frá ári. Þannig verður það einnig árið 2019. Verði það samþykkt hafa reiknireglur vaxtabóta haldist óbreyttar í átta ár en fjárhæðir hafa hins vegar breyst nokkrum sinnum á tímabilinu. Ástæða þess að vaxtabótakerfinu hefur í meginatriðum verið haldið óbreyttu er að áform hafa verið uppi um heildarendurskoðun á húsnæðisstuðningi ríkisins um alllangt skeið og er þá horft bæði til þeirra sem eiga íbúðarhúsnæði og fólks á leigumarkaði. Hafa þarf í huga að þegar hefur verið komið upp nýju húsnæðisstuðningskerfi, frá miðju ári 2014, þar sem einstaklingum er veitt tímabundin heimild til að taka út séreignarlífeyri skattfrjálst til að kaupa íbúðarhúsnæði eða greiða inn á veðlán sem hvílir á viðkomandi húsnæði.

Nú er þetta tvíþættur stuðningur. Annars vegar er um að ræða almennan stuðning við íbúðareigendur að uppfylltum tilteknum skilyrðum sem rennur sitt skeið um mitt næsta ár og hins vegar stuðning við þá sem eru að kaupa sína fyrstu íbúð. Sá stuðningur er varanlegur og gildir í tíu ár fyrir hvern einstakling að uppfylltum tilteknum skilyrðum. Á árinu 2018 er áætlaður heildarstuðningur í þessu formi metinn um 3,5 milljarðar kr. í töpuðum tekjum fyrir ríkissjóð og rúmlega 2 milljarðar fyrir sveitarfélög í formi tapaðs útsvars, samtals 5,5 milljarðar kr. á ári.

Á árinu 2018 nema ákvarðaðar vaxtabætur um 3 milljörðum kr. sem er 1 milljarðs kr. lægri fjárhæð en reiknað var með í fjárlögum ársins. Í ljósi þess að enn er unnið að heildarendurskoðun á húsnæðisstuðningi stjórnvalda í því samhengi og samspili við tekjuskatt og stuðning við barnafjölskyldur er í frumvarpinu lagt til að útreikningsreglur vaxtabóta verði framlengdar um eitt ár í viðbót en að nettóeignamörk bótanna hækki um 10% og fjárhæðir hámarksvaxtagjalda og hámarksvaxtabóta um 5%. Á grundvelli þeirra forsendna er áætlað að útgjöld vegna vaxtabóta nemi 3,4 milljörðum á næsta ári samanborið við nálægt 3 milljörðum á þessu ári og hækki um samtals 13,3%. Samkvæmt því munu óskertar vaxtabætur fara úr 400.000 kr. á einstakling, 500.000 kr. á einstætt foreldri og 600.000 kr. hjá hjónum í 420.000 á einstakling, 525.000 á einstætt foreldri og 630.000 kr. hjá hjónum á ársgrundvelli. Þetta á við ef nettóeign fjölskyldu fer ekki fram úr 5,2 milljónum hjá einstaklingi og einstæðu foreldri og 8,3 milljónum hjá hjónum.

Virðulegi forseti. Að lokum er í samræmi við stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar lagt til að almennt tryggingagjald verði lækkað í tveimur áföngum, um 0,25% frá 1. janúar 2019 og um 0,25% frá 1. janúar 2020. Sú lækkun samsvarar um 4 milljarða kr. tekjutapi fyrir ríkissjóð á næsta ári og samanlagt 8 milljarða á árinu 2020. Sú lækkun ætti að skapa fyrirtækjum aukið svigrúm í komandi kjarasamningum og liðka fyrir samningaviðræðum. Lækkunin ætti eitthvað að vinna á móti skertri samkeppnishæfni atvinnulífsins í kjölfar töluvert mikilla launahækkana og sterkara gengis íslensku krónunnar og er í samræmi við ákall um að tryggingagjaldið lækki aftur í átt til fyrra horfs.

Ég vil fara stuttlega yfir mat á áhrifum tillagna frumvarpsins á ráðstöfunartekjur, verðlag og kaupmátt. Sú tillaga frumvarpsins að efri fjárhæðarmörk tekjuskattsstofns taki árlegum breytingum í samræmi við breytingar á vísitölu neysluverðs í stað launavísitölu er talin leiða til 500 millj. kr. tekjuauka fyrir ríkissjóð. Áætluð áhrif þess að persónuafslátturinn hækki um 1% umfram lögboðna hækkun á vísitölu neysluverðs við staðgreiðslu á árinu 2019 og við álagningu opinberra gjalda á árinu 2020 eru metin í kringum 2,2 milljarða kr.

Hækkanir á viðmiðunarfjárhæðum og tekjuviðmiðunarmörkum barnabóta leiða til þess að heildarútgjöld vegna barnabóta verða umfram það sem gert hafði verið ráð fyrir í fjármálaáætlun fyrir árin 2019–2023. Á árinu 2018 verða útgjöld vegna barnabóta nálægt 10,3 milljörðum, þ.e. á yfirstandandi ári, en stefna í 12,1 milljarð miðað við þær forsendur sem lýst var hér fyrr. Hækkun samkvæmt því verður samtals 17,5% frá þessu ári yfir á næsta, þ.e. 1,8 milljarðar í krónum talið. Tillaga frumvarpsins um breyttar viðmiðanir vaxtabótakerfisins leiðir til þess að heildarútgjöld vegna þeirra hækka úr 3 milljörðum í 3,4 milljarða kr. milli áranna 2018 og 2019. Það svarar til 400 millj. kr. sem er rúmlega 13% hækkun milli ára.

Gert er ráð fyrir því að með lækkun almenns tryggingagjalds um 0,25% frá 1. janúar næstkomandi lækki tekjur ríkissjóðs um 4 milljarða kr. á árinu 2019. Þá munu tekjur ríkissjóðs lækka um 4 milljarða kr. til viðbótar, eins og áður er getið um, við lækkun almenns tryggingagjalds frá 1. janúar 2020 um 0,25%. Samtals eru þetta 8 milljarðar á tveimur árum, 8 milljarðar frá 1. janúar 2020 á ári en 4 milljarðar á árinu 2019.

Ekki verður annað séð en að verði þetta frumvarp óbreytt að lögum ætti það að hafa jákvæð áhrif á ráðstöfunartekjur heimila og íslenskt atvinnulíf. Áhrif þess á stjórnsýslu ríkisins og stofnanir þess eru talin hverfandi. Ljóst er að ríkissjóður mun verða af nokkrum tekjum, a.m.k. til skemmri tíma, enda er markmið aðgerðanna að minnka álögur. Þau áhrif til tekjuminnkunar fyrir ríkissjóð ættu að minnka þegar litið er yfir lengra tímabil með auknum ráðstöfunartekjum fjölskyldna sem aftur skila sér í auknum veltusköttum.

Heildaráhrif frumvarpstillagnanna á afkomu ríkissjóðs eru neikvæð um 7,9 milljarða árið 2019 og 11,9 milljarða á árinu 2020 að öðru óbreyttu.

Virðulegi forseti. Að því sögðu legg ég til að frumvarpinu verði vísað til hv. efnahags- og viðskiptanefndar og til 2. umr. að lokinni þessari umræðu.