149. löggjafarþing — 6. fundur,  18. sept. 2018.

ýmsar aðgerðir í samræmi við forsendur fjárlaga 2019.

2. mál
[14:30]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Svo að ég fylgi nú aðeins eftir þessari hugmynd sem ég fleytti hér áðan er hugsunin sú að viðmiðunarmarkið fyrir breytingu á persónuafslætti frá ári til árs sé það sem ætti að jafnaði að vera svigrúm til launabreytinga, verðbólga plús vöxtur framleiðninnar. Vöxtur framleiðni og verðbólga. Þá væri það bara tekið úr sambandi ef menn semja um launahækkanir sem eru langt umfram framleiðni og verðbólgu. Þá erum við ekkert að elta það neitt og það hefur þá ekki sjálfkrafa áhrif á breytingu á persónuafslætti.

En erum við með þessum breytingum komin með einhverja sjálfvirkni til skattahækkunar í staðgreiðslukerfi í tekjuskattskerfi? Ég segi nei. Þetta frumvarp er dæmi um annað, það er dæmi um að við hækkum persónuafsláttinn umfram viðmið. Ef við horfum nokkur ár aftur í tímann höfum við verið að lækka tekjuskattinn samhliða því að persónuafsláttur hefur hækkað.

Ef menn segja að í gegnum hagsveiflu, gegnum launahækkanatímabil, eigi skattbyrði einstakra hópa ekkert að breytast heldur vera sú sama fyrir og eftir launabreytingarnar hafa menn fyrst komist að þeirri niðurstöðu, væntanlega, að skattbyrðin sé rétt stillt þegar viðkomandi tímabil hófst. Ég var hér í fyrri ræðu minni að segja að ég held að það hafi verið góð þróun undanfarin ár að fleiri komu inn í staðgreiðslukerfið, að fleiri greiði tekjuskatt. Ég er ekkert viss um að við höfum endilega verið með rétta hlutfallið af launþegum í landinu inni í staðgreiðslunni, virka þátttakendur í að greiða skatta af tekjum sínum.

Það er alveg sérstök umræða hvernig við horfum á staðgreiðslukerfið í þessu tilliti. Ég horfi á endanum alltaf á það hvernig ráðstöfunartekjur fólks eru að þróast, ráðstöfunartekjur tekjutíunda. Sem betur fer hafa þær verið að þróast í rétta átt. Við munum geta kafað miklu dýpra til að rannsaka hvernig þetta hefur þróast fyrir einstaka tekjutíundir síðustu áratugina. Þær tölur eru til og við eigum að geta grafist betur fyrir um það.