149. löggjafarþing — 6. fundur,  18. sept. 2018.

ýmsar aðgerðir í samræmi við forsendur fjárlaga 2019.

2. mál
[14:37]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Já, þetta er einmitt mjög gott mál til að draga fram þennan hugmyndafræðilega mun sem er á milli Sjálfstæðisflokksins og Samfylkingarinnar. Hæstv. ráðherra segir að hann sé hér fyrst og fremst að auka skerðingar hjá millitekjuhópum en hann er að fara miklu neðar en það. Skerðingin eykst hjá fólki með 460 þús. kr. á mánuði. Það er ekki millitekjuhópurinn, hann er með hærri laun en það eins og ég gat um áðan. Meðallaunin eru yfir 700 þús. kr. Miðgildislaunin, sem er kannski réttara að miða við, eru 618 þús. kr. Þannig að hér er enn verið að skerða barnabætur gagnvart þeim hópi sem er með hvað lægstu tekjurnar.

Auðvitað fagna ég sérhverri krónu sem sett er í barnabætur. Hér er verið að setja aukalega 1,8 milljarða í barnabætur en það er áhugavert að setja í samhengi að í tveimur öðrum frumvörpum, sem hæstv. fjármálaráðherra mun mæla fyrir seinna í dag, er hann að taka 2,3 milljarða frá almenningi. Það á að hækka útvarpsgjald, olíugjald, kolefnisgjald, bifreiðagjald, áfengisgjald, gjöld í Framkvæmdarsjóð aldraðra. Það er áhugavert að setja þetta í samhengi.

Mig langar í seinna andsvari mínu aðeins að minnast á vaxtabætur. Þegar menn tala um að í fjárlagafrumvarpi sé verið að hækka vaxtabætur finnst mér að verið sé að blekkja fólk. Búið var að ákveða að settir yrðu 4 milljarðar í vaxtabætur 2018, verða bara 3 milljarðar vegna skerðinganna, við erum búin að ganga svo langt í þeim, og nú fyrir 2019 á að setja 3,4 milljarða í þetta. Þetta er að sjálfsögðu lækkun vaxtabóta miðað við það sem við vorum búin að ákveða að yrði sett 2018.

Ég minni á að síðast þegar Samfylkingin var í ríkisstjórn settum við 100 milljarða samanlagt í vaxtabætur og barnabætur á kjörtímabilinu. Við settum fjórum sinnum hærri upphæð í vaxtabætur. Þess vegna skil ég ekki af hverju hæstv. fjármálaráðherra kemur hér með fjármálaáætlun í vor þar sem beinlínis er sagt að heildarupphæð vaxtabóta eigi ekki að aukast.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra: Stendur til að standa við það að (Forseti hringir.) búið sé að setja þak á heildarupphæð vaxtabóta eða er hann tilbúinn til að breyta því eins og hann virðist gera af veikum mætti varðandi barnabæturnar?