149. löggjafarþing — 6. fundur,  18. sept. 2018.

ýmsar aðgerðir í samræmi við forsendur fjárlaga 2019.

2. mál
[14:40]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fyrst um barnabæturnar: Þegar kemur að tekjuskattskerfinu almennt er hv. þingmaður, og flokkurinn hans almennt, mjög upptekinn af því að gæta þurfi að tekjujöfnunarhlutverki tekjuskattskerfisins. Þegar hins vegar kemur að barnabótakerfinu, sem spilar með tekjuskattskerfinu, er eins og menn tali gegn tekjujöfnunarhlutverki kerfisins.

Það er alveg rétt að verið er að auka skerðinguna miðað við ákveðið viðmið sem liggur í kringum meðaltekjur en ég hef áður komið inn á að bæturnar sjálfar hækka og við teygjum okkur fyrst og fremst til barnafjölskyldna sem eru neðar í tekjustiganum.

Varðandi vaxtabætur orðaði hv. þingmaður það þannig að það hefði verið ákveðið hvað ætti að setja í vaxtabætur. Talan sem sett er fram í fjárlögum á hverju ári er reiknuð stærð. Hún er reiknuð miðað við ákveðnar forsendur, miðað við ákveðna tekjuþróun í samfélaginu, og svo fæst uppreiknuð niðurstaða síðar á árinu. Það er rétt að öll fjárhæðin gekk ekki út á yfirstandandi ári vegna þess að laun hafa hækkað meira og eignastaða fjölskyldna hefur reynst önnur og betri en við sáum fyrir. Þegar menn ræða síðan vaxtabótakerfið í lengri tíma samhengi verður að hafa í huga það sem ég nefndi hér í framsöguræðu minni að við höfum verið að grípa til annarra úrræða til að hjálpa fjölskyldum sem eru að greiða af húsnæðislánum sínum. Ég nefndi hér að séreignarsparnaðarúrræðið okkar, skattaívilnunin sem í því felst, nemi um 5,5 milljörðum á ári. Hún spilar síðan aftur með 80 milljarða höfuðstólslækkuninni sem við réðumst í. Þannig að þegar menn horfa á þetta, horfa síðan á húsnæðisbótakerfið, stofnstyrkina sem við höfum ráðist í, endurgerð lagarammans fyrir leigjendur o.s.frv., fá menn fyrst mynd af því hvað við erum að gera vegna húsnæðismála almennt.