149. löggjafarþing — 6. fundur,  18. sept. 2018.

ýmsar aðgerðir í samræmi við forsendur fjárlaga 2019.

2. mál
[15:04]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að aðalatriðið sé að þetta sé alla vega sama vísitalan. Nú erum við með þannig fyrirkomulag að það er mismunandi vísitala, hvort sem litið er til persónuafsláttar eða til viðmiðunarmarka tekna. Ég hallast hins vegar að því að við ættum að styðjast við neysluverðsvísitöluna.

Í hvað notum við tekjurnar okkar? Til að kaupa vörur. Kaupmáttur tekna er reiknaður út frá því hve mikið við getum fengið fyrir krónurnar okkar. Ef við notum launavísitölu gæti það líka — nú er ég bara að hugsa upphátt úr þessum stól, þetta eru áhugaverðar umræður. Ef persónuafsláttur yrði tengdur við launavísitölu gæti það auðvitað virkað þannig að ákveðin tregða yrði til að hækka laun, m.a. frá einum stærsta atvinnurekanda landsins sem er ríkið. Með því að hækka laun opinberra starfsmanna hækkar launavísitala og þá myndi persónuafslátturinn hækka.

Mikil hækkun persónuafsláttar er mjög dýr. Það kostar um 1,7 milljarða, eitthvað svoleiðis, ég man þetta ekki alveg, að hækka persónuafslátt um 1.000 kr. Þið sjáið að ef persónuafsláttur hefði verið tengdur við launavísitölu, ég vona að ég sé ekki að fara með rangt mál, væri hann um 20 þús. kr. hærri en raun ber vitni. Þá ertu kominn með 20–30 milljarða. Það er svolítið há upphæð, ef ég man þessar tölur rétt.

Í mínum huga: Styðjumst við sömu vísitölu. Ég hallast frekar að því að styðjast við neysluverðsvísitölu en launavísitölu.

Aðeins varðandi launin almennt: Hér er bara undirliggjandi vandi sem lýtur að framleiðninni. Þeirri skoðun held ég að allir þingmenn deili. Framleiðni er ekkert annað en afköst á klukkustund. Ástæðan fyrir að við getum haldið norrænum lífskjörum, þrátt fyrir að hafa gríska framleiðni, ef svo má segja, er sú að við vinnum mikið. Við erum með langan vinnudag, háa atvinnuþátttöku kvenna og háa atvinnuþátttöku eldri borgara. Þetta er ástæðan, þrjár ástæður fyrir því að við náum að halda tiltölulega hárri landsframleiðslu á hvern haus (Forseti hringir.) þrátt fyrir að framleiðnin okkar sé lág. Hún hefur verið lág í marga áratugi og það er stórt áhyggjuefni sem allur þingheimur ætti að tala oftar um.