149. löggjafarþing — 6. fundur,  18. sept. 2018.

ýmsar aðgerðir í samræmi við forsendur fjárlaga 2019.

2. mál
[15:14]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Já, að sjálfsögðu fagna ég því þegar betur gengur hjá fólki — það gerir það svo sem ekki hjá öllum en hjá sumum. Ég svara á móti: Leyfum þá fólki að njóta ávaxtanna.

Ef launin eru að hækka, ef eignin er að verða meira virði af hverju þarf krumla ríkisvaldsins að koma af fullum krafti og skerða þær bætur sem þú færð á móti? Þetta hafa verkalýðsfélögin verið að benda á. Þau ná einhverjum sigrum í kjarasamningum og að sama skapi kemur ríkið á móti með skerðingar, þannig að nettóáhrifin verða minni en til stóð. Það er það sem ég er að gagnrýna, að við þurfum að standa myndarlega að velferðarkerfinu. Velferðarkerfið á ekki að vera lágmarksnet, eins og sumir hægri menn nálgast það. Velferðarkerfið á að vera öflugt. Við eigum að vera í þessum norræna anda, við eigum ekki að vera í breska eða bandaríska andanum. Við erum ekki einu sinni að sinna lágmarkshlutverki velferðarkerfisins eins og hér hefur verið bent á.

Mig langaði aðeins að koma inn á það — af því að ég tala mikið um skatta og fólk heldur kannski að ég vilji bara hækka skatta og Samfylkingin standi bara fyrir það — að mér finnst við einfaldlega vera ábyrg í afstöðu okkar þegar við erum að kalla eftir auknum ríkisútgjöldum. Við höfum stundum verið að gagnrýna vini okkar í Vinstri grænum fyrir það, en þá erum við líka með hugmyndir um aukna skatta á móti.

Samfylkingin hefur oft staðið að skattalækkunum. Ég vil bara rifja það upp að Samfylkingin, þegar hún var í ríkisstjórn 2009, hækkaði persónuafslátt, það er lækkun tekjuskatts. Samfylkingin hefur meira að segja staðið að lækkun fjármagnstekjuskatts; við innleiddum frítekjumark sem nánast hreinsaði þann stokk af skattgreiðendum. Við höfum lækkað tekjuskatt fyrirtækja en ólíkt okkur og þeim sem eru í ríkisstjórn núna, og kannski ekki síst Sjálfstæðismönnum, höfum við reynt að hlífa lágtekjuhópunum.

Eftir hrunið minnkaði skatturinn hjá lægsta tekjuhópunum, samkvæmt rannsóknum uppi í háskóla hjá Þjóðmálastofnun. Nú hefur skattbyrði tekjulægstu hópanna og þeirra með millitekjur verið að aukast. Jú, út af því að launin hafa verið að hækka. En af hverju leyfum við ekki fólki að njóta góðs af því? Af hverju á ríkið alltaf að njóta góðs af því ef launin hækka?

Við þurfum ekki að láta skattbyrðina aukast hjá lágtekju- og millitekjufólki þrátt fyrir að laun þessara hópa hafi eitthvað verið að hækka. Það er pólitísk ákvörðun sem við getum mætt með skynsamlegri skattapólitík.