149. löggjafarþing — 6. fundur,  18. sept. 2018.

ýmsar aðgerðir í samræmi við forsendur fjárlaga 2019.

2. mál
[15:17]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Virðulegur forseti. Ég ætla ekki að hafa mörg orð um þetta tiltekna mál, en það eru nokkrir þættir sem ég staldra aðeins við. Í fyrsta lagi varðar það það fyrirkomulag að breyta uppreikningi skattþrepanna þannig að hann skuli í báðum þrepum miðast við vísitölu neysluverðs, í stað launavísitölu í efra þrepi og vísitölu neysluverðs í því neðra, gagnvart persónuafslætti. Það er vissulega rétt og mikilvægt að þetta sé samræmt. En það er alveg ljóst að þetta felur í sér aukna skattbyrði til lengri tíma litið. Þetta felur í sér að skattbyrðin þyngist jafnt og þétt og sér í lagi á neðri tekjutíundirnar á vinnumarkaði og raunar bara almennt. Það finnst mér mjög óheppilegt fyrirkomulag. Þetta er dálítið kerfiskallafyrirkomulag, ef þannig mætti orða það. Þetta er voðalega þægilegt. Það þarf þá ekkert að vera að taka ákvörðun um að hækka skatta með reglulegu millibili, það gerist bara af sjálfu sér. Skattkerfið ætti að vera sambærilegt frá ári til árs, frá áratug til áratugar þegar kemur að skattbyrði einstakra tekjutíunda. Með þessum breytingum verður það það ekki. Ég hefði frekar viljað sjá samræminguna í hina áttina, að persónuafslátturinn yrði þá reiknaður árlega á grundvelli launavísitölu en ekki vísitölu neysluverðs.

Ég hlustaði eftir hugmyndum hæstv. fjármálaráðherra í andsvari hér áðan varðandi það að breyta þessu fyrirkomulagi til lengri tíma litið, að notast við einhvers konar framleiðnimælikvarða. Vandinn er auðvitað sá að framleiðniaukning getur verið mjög breytileg milli atvinnugreina og er talsvert loðnara hugtak, getum við sagt, og erfiðara í mælingu en hefðbundnar vísitölumælingar. Þegar öllu er á botninn hvolft sjáum við, þegar við horfum á áratugi í senn, að laun og kaupmáttur hafa tilhneigingu til að hækka í takt við þá sömu framleiðniaukningu þó að það sé mjög sveiflukennt hér á landi. Þar af leiðandi eru laun að raungildi að hækka að jafnaði um 1,5% á ári þó að vissulega geti það verið mjög breytilegt frá einu ári til annars.

Það sem er enn áhugaverðara í þessu samhengi — og kannski er rétt að auglýsa eftir stefnu ríkisstjórnarinnar í skattamálum og tekjuskattsmálum sérstaklega, því að hún virðist breytast nánast frá mánuði til mánaðar — er að í stjórnarsáttmála stendur að stefna skuli að lækkun skattprósentunnar í neðra þrepinu um 1%. Það var búið að verðleggja þá breytingu upp á 14 milljarða í umræðu hér um fjármálaáætlun frá því síðasta vor. Nú er hins vegar skyndilega gripið til þess ráðs að hækka persónuafsláttinn aukalega umfram verðlag og hækka barnabætur, sem ég get svo sannarlega fagnað. Sambærilegar tillögur voru hins vegar lagðar fram hér af bæði Viðreisn og Samfylkingu — Viðreisn hvað varðar sérstaka hækkun á vaxtabótum og Samfylkingu hvað varðar sérstaka hækkun á barnabótum — í síðustu fjárlagaumræðu og var þá fellt af þessum sama meiri hluta. Nú er að einhverju leyti komið til móts við þær hugmyndir sem þá voru lagðar fram.

Vandinn er kannski fyrst og fremst þessi: Þegar hlustað er á raddir í stjórnarmeirihlutanum, um skattbreytingar eða fyrirhugaða endurskoðun á skattkerfinu, var lagt upp með það í stjórnarsáttmálanum að lækka neðri skattprósentuna um 1%. Það hefur vissulega verið gagnrýnt að í núverandi fyrirkomulagi gagnast það ekkert síður og jafnvel enn betur þeim sem eru með tekjur í meðallagi eða yfir meðallagi. En varla var búið að setja það niður á blað þegar ríkisstjórnin var horfin frá þessu og lýsti því yfir að hafin væri einhvers konar endurskoðun á samspili tekjuskattskerfis og bótakerfis. Orðalagið í þeim yfirlýsingum hljómaði nokkuð í takt við þær hugmyndir sem lagðar voru fram á samráðsvettvangi um aukna hagsæld sem var þá stiglækkandi persónuafsláttur með hækkandi tekjum, útgreiðanlegur jafnvel — sem er hugmynd sem ég persónulega hef verið mjög hrifinn af og Viðreisn hefur raunar verið með á stefnuskrá sinni, bæði fyrir kosningarnar 2016 og 2017. Framsóknarflokkurinn var með svipaðar hugmyndir alla vega fyrir kosningarnar 2017. Það var þeim mun áhugaverðara að hlusta á hæstv. félagsmálaráðherra tala um eitthvað allt annað hér í umræðum um fjárlagafrumvarpið síðastliðinn föstudag þar sem hann var farinn að tala um að bæta við hærra skattþrepi mjög í anda þeirra hugmynda sem Vinstri græn hafa sett fram og Samfylkingin að hluta.

Ég velti því fyrir mér í þessum hringlandahætti hvort ríkisstjórnin viti hvert hún ætlar að stefna í tekjuskattskerfinu eða hvað eigi að gera. Þetta er áhugavert. Ég held að það væri betra fyrir alla hlutaðeigandi ef ríkisstjórnin gæti komið sér saman um einhverja stefnu í þessu. Það er alveg augljóst að milli þeirra tveggja fjárlagafrumvarpa sem þessi ríkisstjórn hefur lagt fram, og af fjármálaáætlun sem hún lagði fram í millitíðinni, virðist þessi stefna stöðugt vera að breytast. Hún virðist hálfáttavillt, blessuð stjórnin, í þessu.

Persónulega held ég að það væri farsælast að við tækjum til við að endurskoða tekjuskattskerfið í anda þeirra tillagna sem lagðar voru fram af hálfu samráðsvettvangsins. Heppilegast væri, held ég líka, að sú endurskoðun færi fram á vettvangi þingsins því að það er mjög mikilvægt að við hættum þessum hringlandahætti í tekjuskattskerfinu okkar fram og til baka. Við eigum ekki að vera að fikta í tekjuskattskerfi, þá er ég að tala um grunneiginleikum tekjuskattskerfisins, eftir geðþótta einstakra fjármálaráðherra eða stjórnmálaflokka eða eftir því hvort 500 milljónum meira eða minna vantar í ríkiskassann þá stundina. Það þarf að vera heildstæð hugsun í þessu kerfi og það þarf að vera sæmilega stöðugt milli ára og áratuga. Auðvitað er ekkert óeðlilegt við að það sé stillt af með einhverjum hætti, en við eigum ekki að vera í endalausri uppstokkun eins og við höfum verið á undanförnum árum þar sem hálfgerðar U-beygjur hafa verið teknar nánast í hvert sinn á milli ríkisstjórna.

Ég er hrifinn af þeim hugmyndum sem settar hafa verið fram af hálfu samráðsvettvangsins af þeim sökum fyrst og fremst að þetta eru mjög skynsamlegar hugmyndir fyrir tekjulægstu hópana í samfélaginu. Þetta eru tillögur, varðandi stiglækkandi persónuafslátt, varðandi útgreiðanlegan persónuafslátt, sem eru í senn hvetjandi til atvinnuþátttöku, nýtast tekjulægstu tíundunum hvað best og gera okkur mun auðveldar um vik en í núverandi tekjuskattskerfi að stilla kerfið nákvæmlega af fyrir tekjulægstu hópana og um leið er alveg nauðsynlegt að taka til endurskoðunar barnabótakerfið og vaxtabótakerfið. Þar er ég alveg sammála þeirri grunnhugsun sem er í kerfinu í dag, en hún þarfnast yfirferðar, að þessum stuðningi sé beint að tekjulægstu hópunum í samfélaginu.

Það er alveg rétt, sem kom fram í máli hæstv. fjármálaráðherra hér áðan, að við eigum í grunninn ekki að vera með stuðningskerfi sem styður fólk með millitekjur eða hærri tekjur. Það getur ekki verið tilgangur, hvorki tekjuskatts- né bótakerfa hjá okkur, að styðja fólk með meðaltekjur eða meira. Það skýtur eitthvað skökku við í þeirri hugsun.

Þess vegna kalla ég eftir því — og vel er hægt að bjóða fram aðstoð þingsins í þessu stefnuleysi ríkisstjórnarinnar þegar kemur að tekjuskattskerfinu — að við setjumst einfaldlega yfir þetta í sameiningu og endurskoðum málið.

Það er eitt í þessum bótakerfum sem ég held að þurfi líka að skoða sérstaklega, sér í lagi þegar kemur að vaxtabótaþættinum en hefur líka átt við um barnabæturnar. Okkur hefur hætt við að láta þessi kerfi sitja eftir í uppsveiflu. Hann snarminnkar hlutfallslegur stuðningur þessara kerfa þegar vel árar og blómstrar svo myndarlega að nýju í kreppu og mögulega má að einhverju leyti hugsa til þess þannig. Ég held að þetta hafi verið of öfgafullar hreyfingar.

Sér í lagi vil ég benda á, þegar kemur að vaxtabótakerfinu okkar, húsnæðisstuðningnum hvað þetta varðar, að það ætti eingöngu að tekjutengja hann, ekki eignatengja hann. Ég er ekkert betur settur sem einstaklingur þó að íbúðin mín hafi hækkað í verði ef lánið er jafn hátt og það var og ef tekjurnar mínar eru þær sömu og þær voru. Það gagnast mér ekkert að 40 millj. kr. íbúð sé skyndilega 44 millj. kr. virði ef tekjurnar mínar eru þær sömu og skuldirnar mínar eru þær sömu. Forsendurnar fyrir ákvörðun minni eru óbreyttar og ég reiddi mig á stuðning í vaxtabótakerfi en er kannski sleginn út allt í einu af því ég á skyndilega „meiri eign“. Greiðslubyrði mín er sú sama. Krónurnar í veskinu fyrir og eftir afborgun eru þær sömu. Þetta getur ekki verið viðmið í stuðningskerfi sem þessu. Það er fullkomlega eðlilegt að tekjutengja, þar eru þá raunverulega einhverjar breytingar á stöðu.

Ég held því að það sé mjög mikilvægt að ljúka þessari endurskoðun sem fyrst hvað varðar bæði tekjuskattskerfið og þessi mikilvægu stuðningskerfi í vaxta- og barnabótum.

Að lokum kannski bara til að spara þinginu eina viðbótarræðu. Í máli sem hæstv. fjármálaráðherra mun mæla hér fyrir á eftir vekur það athygli mína að fjármálaráðuneytið er í einhvers konar tiltekt á ýmsum gjaldstofnum, að hækka þar sem ráðuneytið telur vanta upp á að gjaldstofnar hafi fylgt verðlagsþróun frá 2010 að telja. Það er mjög sérstakt því að það er náttúrlega alls ekkert sjálfgefið að ýmsir gjaldstofnar ríkisins eigi að hækka í takt við verðlag. Það er partur af þessari verðbólgusýki okkar að vera sýknt og heilagt að miða okkur við einhverja hækkun á vísitölu neysluverðs og allt annað þurfi þá væntanlega að hækka í takt við hana. Þegar maður horfir á verðlagningu á vöru og þjónustu í frjálsri samkeppni sjáum við undantekningarlítið að þessir sömu liðir eru að hækka talsvert minna en vísitala neysluverðs á sama tímabili heilt yfir. Almennt held ég að í rekstri fyrirtækja njóti menn ekki þess munaðar að geta alltaf verðbætt öll verð hjá sér. Ríkið ætti að láta af þeim ósið.

Það sem mér þykir verra í þessu samhengi er að í tengslum við kjarasamninga fyrir nokkrum árum var talað um að ríkið gætti að sér í þessu efni, að það hefði það að leiðarljósi að hækka ekki einstaka gjaldstofna sína eða krónutölur í sköttum meira en sem næmi verðbólgumarkmiði Seðlabanka á hverjum tíma, sem mér þótti gott markmið. Mér finnst einhvern veginn verið að, ef svo má orða það, annúlera það loforð með þessu, það má þá leiðrétta mig ef ég er að misskilja eitthvað. En mér finnst þetta ákvæði fyrst og fremst helgast af því að verið er að eyða það miklu á útgjaldahliðinni að allra leiða er leitað til þess að hækka tekjur án þess að kalla það skattahækkanir, þess vegna eru sóttar einhverjar 500 milljónir aukalega þarna. Svo er tekjuskattskerfinu breytt þannig að hægt sé að hækka hér skatta á hverju án þess að nokkur taki eftir því.