149. löggjafarþing — 6. fundur,  18. sept. 2018.

ýmsar aðgerðir í samræmi við forsendur fjárlaga 2019.

2. mál
[15:30]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla að reyna að spara þarnæsta dagskrármálið þar til að því kemur, en þetta tengist auðvitað og er væntanlega ástæðan fyrir því að hv. þingmaður fór út í þá sálma í ræðu sinni.

Mig langar að spyrja hv. þingmann aðeins út í þetta með upphæðarmörkin milli neðra og efra skattþreps tekjuskatts og þá sérstaklega í samhengi við þessa verðbólgusýki eins og hv. þingmaður kallaði hana.

Ég tók þátt í umræðunum áðan og hlýddi á hæstv. fjármálaráðherra og hv. þingmann sem talaði hér á undan. Ég spurði hv. þm. Ágúst Ólaf Ágústsson hvort ekki væri eðlilegra að nota launavísitölu frekar en neysluverðsvísitölu til að ákveða hækkanir á persónuafslætti og þessum mörkum neðra og efra þreps. Hv. þingmaður svaraði því, með ágætum rökum að mínu mati, að ef þetta væri launavísitala og ef við litum bara á nokkur undanfarin ár, þar sem laun hafa mjög mikið, þá mundi það þýða ofboðslega miklu hækkun persónuafsláttar og þar af leiðandi ofboðslega mikil útgjöld ríkissjóðs í kjölfarið. Mér þykja þetta alveg ágætisrök. Svo þegar ég prófaði að snúa þeim við og velti fyrir mér: Hvað ef það væri ofboðslega mikil verðbólga, yrði það eitthvað skárra? Ég lendi þá kannski á svipuðum stað og ég er að lenda á í verðtryggingamálum, þ.e. að svona ferli sem næra sjálf sig, verðbólga sem nærir sjálfa sig, séu óæskileg fyrirbæri í eðli sínu.

Í því sambandi skynja ég ákveðna mótsögn sem er nú ekki hv. þingmanni að kenna. Mér finnst ákveðin mótsögn fólgin í því að við eigum ekki alltaf að vera að fikta í þessum tölum, eitthvað sem ég skil mætavel og tek undir í grundvallaratriðum, en á sama tíma ættum við helst ekki að vísitölutengja þetta. Þá auðvitað bara (Forseti hringir.) stendur eftir: Hvað er hægt að gera?

Spurningin sem mig langaði í grunninn að spyrja hv. þingmann: Hver eru viðhorf hans til þess að binda (Forseti hringir.) persónuafsláttinn og þessi tekjuskattsmörk við vísitölu yfir höfuð?