149. löggjafarþing — 6. fundur,  18. sept. 2018.

ýmsar aðgerðir í samræmi við forsendur fjárlaga 2019.

2. mál
[15:36]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Forseti. Ég held að við séum sammála um það, ég og hv. þingmaður, að það væri ákaflega gott ef við hefðum meiri verðlagsstöðugleika í grunninn og þyrftum ekki alltaf að vera í þessum verðlagsuppfærsluæfingum sem við svo gjarnan festumst í. Það er auðvitað ekkert sjálfgefið að hlutir eigi endilega að hækka á milli ára. Við göngum alltaf út frá því sem gefnum hlut hér og erum alltaf að verðbæta. Í hagkerfum þar sem er alvöruverðlagsstöðugleiki er það ekkert sjálfgefið að ríkið eigi t.d. að uppfæra einstaka gjaldstofna hjá sér frá einu ári til annars, hvað þá að horfa tíu ár aftur í tímann eða svo og reikna alla súpuna upp aftur.

Þetta er háð myntinni að stórum hluta, eins og hv. þingmaður kom inn á. Við erum alveg örugglega sammála um að æskilegt væri að við værum hér með almennilega og stöðugri mynt. Það höfum við séð hjá nágrannaríkjum okkar sem búa við talsvert stærra og stöðugra myntsvæði. Þar er verðlagsstöðugleiki allt annar en hér er. Dugir t.d. að líta til nágranna okkar í Færeyjum sem búa við einhæft hagkerfi að mörgu leyti, mun háðari sjávarútvegi en við erum og með danska krónu og hafa verið alla tíð. Þeim hefur tekist ágætlega upp við sína hagstjórn þó svo að sú danska króna sé aftur fest við gengi evru, svo að dæmi sé nefnt. Þetta má raunar sjá hjá fleiri Norðurlöndum. Finnar hafa tekið upp evru. Danir hafa bundið sig við evru og Svíar eru í raun nátengdir evrunni líka. Öll með sína aðferðina, en öll þessi ríki náð sambærilegum og góðum árangri, það er mun meiri verðlagsstöðugleiki, meiri gengisstöðugleiki, mun lægra vaxtastig en hér. Það er auðvitað kjarni máls, eitthvað sem við mættum gjarnan ræða meira.