149. löggjafarþing — 6. fundur,  18. sept. 2018.

ýmsar aðgerðir í samræmi við forsendur fjárlaga 2019.

2. mál
[15:59]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég er sammála hæstv. fjármálaráðherra, Bjarna Benediktssyni, að þessu leyti. Við eigum aldrei að búa til þannig kerfi að það sé byggt út frá því að drepa allt frumkvæði og vilja fólks til að bjarga sér. Það er auðvitað ömurlegt kerfi. Þess vegna er ég í samráðshópi um endurskoðun almannatrygginga. Ég vona að við náum að ganga þannig frá málum í þessu samhengi að fólk fái að vinna. Að banna fólki að vinna er það heimskulegasta sem ég hef nokkurn tíma upplifað, hvort sem fólk er á bótum eða ekki. Ef venjulegur launamaður tekur sér aukavinnu þá er honum ekkert refsað fyrir það. Það dettur engum í hug. En af því að þetta heitir örorkubætur eða lífeyrislaun eða eitthvað svoleiðis og einstaklingi sem fær þannig laun dettur í hug að auka tekjurnar og fara að vinna — nei, þá á fyrst að skerða krónu á móti krónu og síðan kemur önnur refsing ofan á það. Það er skattur. Og 45% skerðing á því sem eftir er.

Þetta er það kerfi sem við erum búin að byggja upp, það kerfi sem ég ætla að reyna að gera allt sem ég get til að það verði endurskoðað, einfaldað og að við hættum öllum þessum refsingum. Byrjum á að reyna að hjálpa fólki til að þeir sem geta unnið vinna og þeir sem geta ekki unnið geti líka lifað með reisn og þurfi ekki að telja hverja einustu krónu um hver einustu mánaðamót og spyrja sig að því: Á ég fyrir lyfjum, kemst ég til læknis eða á ég fyrir mat?