149. löggjafarþing — 6. fundur,  18. sept. 2018.

ýmsar aðgerðir í samræmi við forsendur fjárlaga 2019.

2. mál
[16:01]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg):

Herra forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um ýmsar aðgerðir í samræmi við forsendur fjárlaga, þ.e. hvernig skatta- og bótakerfin breytast vegna forsendna fjárlaga. Hæstv. ráðherra fór ágætlega yfir hvað er hér á ferðinni og hvaða breytingar er verið að gera. Það eru stigin í þessu frumvarpi skref í þá átt að halda áfram á þeirri vegferð að nota skattkerfið í meira mæli en gert hefur verið sem tekjujöfnunartæki.

Þetta er afar jákvætt. Um það má deila, eins og hefur komið fram í máli margra hv. þingmanna í dag, hvort gengið sé nógu langt í því. Menn geta rætt það fram og til baka og eins hvort við séum að nota allt það svigrúm sem við höfum til að bæta í.

Á hitt er að líta að við erum vissulega bundin af fjármálaáætlun sem var samþykkt í vor. Frumvarpið er mjög í anda hennar. En þó er hér skattkerfisbreyting sem er veigamikil breyting frá því sem vikið var að í fjármálaáætlun, þ.e. við tökum um það ákvörðun að í stað þess að lækka flatt tekjuskattsprósentuna beinum við lækkuninni í þá átt að hún hafi mest áhrif fyrir þá sem hafa lægri tekjur eins og sést ágætlega í töflu þeirri sem er prentuð með frumvarpinu.

Auðvitað geta menn deilt um það hvort þetta séu stórar upphæðir eða litlar eða hvort þetta skipti raunverulega einhverju máli eða engu. En það má samt benda á að hækkun tekjuskatts hjá einstaklingi sem er með milljón á mánuði, sem er bara svipað og flestir þingmenn eru með á ársgrundvelli, er um 55 þús. kr. á ári vegna þessa frumvarps. Nú er ég ekki að segja að það sé eitthvað rosalega mikið en það er sannarlega skref í rétta átt, sérstaklega þegar tekið er tillit til þess að byrðin minnkar á þeim sem hafa lægstu kjörin. Tekjudreifingin hvað þetta varðar stefnir sannarlega í rétta átt og eins og margir þingmenn hafa komið hér inn á, m.a. margir þingmenn stjórnarflokkanna og raunar þingmenn úr öllum stjórnarflokkunum. Við erum við að nota tekjuskattskerfið í meira mæli en áður hefur verið gert og skattkerfið yfirleitt í þeim tilgangi að jafna byrðarnar og láta þá sem hafa hæstu launin og hæstu tekjurnar beru þyngstu byrðarnar og það er vel.

Ef ég réði þessu öllu sjálfur þá myndi ég kannski ganga dálítið lengra. Þannig er það náttúrlega ekki, en þetta er sannarlega skref í rétta átt.

Þingmenn hafa komið hér upp og gert lítið úr breytingu á barnabótum, sagt: Jú, þetta er svo sem ágætt. En ég vil bara minna á það að hækkun á barnabótum, til að mynda í lægstu tekjubilunum þar sem er verið að hækka barnabætur á ársgrundvelli eins og kemur fram í annarri töflu hér, er um 114 þús. kr. Þetta er ekki það sem heitir á engilsaxnesku „game changer“, með leyfi forseta, eða leikjabreytir, en þetta breytir samt miklu fyrir þá sem eiga í hlut. Það gerir það. Alveg eins og margir hv. þingmenn hafa komið inn á þá skipta 100 þús. kr. fyrir þá tekjulægstu verulegu máli. Það er þannig og við skulum bara horfast í augu við það. Þess vegna eigum við ekki að gera lítið úr því. Við hækkum barnabæturnar um sem svarar 17% á næsta ári, þ.e. þau framlög ríkisins sem fara í barnabætur. Það er sannarlega skref í rétta átt.

Hvað varðar húsnæðisbæturnar erum við að mínu viti enn þá föst í kerfi sem við höfum mörg sagt, og ég held að þingmenn allra flokka hafi sagt, að við vildum gjarnan komast út úr, þ.e. að kerfið fókuseri frekar á húsnæðisstuðning, eins og ég hef raunar komið nýlega inn á í ræðu hér í þinginu, fremur en að kerfið sé fyrst og fremst þessar vaxtabætur sem þarna eru núna. Auðvitað vitum við að það eru húsaleigubætur líka en þær eru ekki beinlínis til umræðu hér.

Innbyggt í vaxtabótakerfið er að það er ákveðinn hvati fyrir fólk að kaupa sér húsnæði, jafnvel þó að það hafi ekki efni á því. Öðruvísi fái það jafnvel ekki stuðninginn sem það þarf til að vera í húsnæði, eða fái ekki þann stuðning sem það telur sig þurfa. Við þekkjum íslenska leigumarkaðinn og hversu ótryggur hann getur verið o.s.frv. Þar er annar hvati fyrir fólk til að verða sér úti um húsnæði, sem er mjög skiljanlegt.

Við sjáum í frumvarpinu að jafnvel þótt það séu áform um að hækka vaxtabæturnar um 400 milljónir í útgreiðslum á næsta ári miðað við þetta ár þá vitum við náttúrlega ekkert, ef fasteignaverð heldur áfram að hækka, hvort það næst. Það segir okkur kannski hvað kerfið í grunninn einblínir á ranga hluti. Ég held að flestir þeir sem eru hér inni geti verið sammála um að eignamörk upp á 5 milljónir áður en vaxtabætur byrja að skerðast hjá einstaklingi og 8,3 milljónir hjá hjónum eru ekki sérstaklega há eignamörk. Ég held að allir geti verið sammála um það. Fyrir fimm manna fjölskyldu sem þyrfti að lágmarki, skulum við segja, að búa í fjögurra herbergja íbúð, eru 8,3 milljónir ekki endilega rosalega há prósenta í heildarverði eignar sem viðkomandi fjölskylda á. Eins og komið hefur verið inn á hér fyrr í dag er greiðslubyrðin eftir sem áður alveg sú sama, þ.e. maður skuldar alveg jafn mikið eða jafnvel meira í eigninni, segjum 50 millj. kr. fasteign, ef maður á 8 milljónir í henni skuldar maður 42 og þarf að borga vexti af því. Þá getur markið verið býsna lágt.

Þess vegna held ég að við ættum eins og hæstv. fjármálaráðherra kom raunar inn á að vinda bráðan bug að því að fara að koma á breytingum á húsnæðisstuðningskerfinu. Við erum byrjuð á þeirri vegferð eins og í almennu íbúðunum. Þar hefur ekki farið alveg eins vel af stað eða eins hratt og menn hefðu viljað en það má gera betur og það þarf sérstaklega að gera betur í málefnum leigjenda.

En ég hlakka til að ræða þetta frumvarp frekar í hv. nefnd og við 2. umr.