149. löggjafarþing — 6. fundur,  18. sept. 2018.

ýmsar aðgerðir í samræmi við forsendur fjárlaga 2019.

2. mál
[16:10]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Hækkun vaxtabóta, sem ríkisstjórnin boðar í þessu frumvarpi, er ekki stórmannleg. Bæturnar hækka á ársgrundvelli um 20 þús. kr. hjá einstaklingi sem gerir um 1.600 kr. á mánuði; 25 þús. kr. á einstætt foreldri sem gerir um 2.000 kr. á mánuði og 30 þús. kr. á hjón sem eru um 2.500 kr. á mánuði. Þessi hækkun byggist á úreltum reiknireglum vaxtabóta þar sem nettóeignarmörk bótanna hækka um 10% og fjárhæðir hámarksgjalda og vaxtabóta um 5%. Ég hef áður sagt það að þessi ráðstöfun, sem stendur til að gera, er eins og að skvetta vatni á gæs í því umhverfi sem húsnæðismarkaðurinn okkar er í í dag. Ísland er með mestu hækkun á húsnæðisverði í heiminum, eða um 70% á síðustu fimm árum.

Á sama tíma og sífellt færri fá vaxtabætur vegna íbúðarhúsnæðis hafa fasteignagjöld sem sveitarfélögin leggja á hækkað um meira en 50% vegna gríðarlegra hækkana á húsnæðisverði. Ég hef áður sagt það að niðurstaðan er einföld, bótagreiðslur til húsnæðiseigenda hafa hríðlækkað á sama tíma og skattar á húseigendur hafa hækkað umtalsvert.

Hæstv. fjármálaráðherra staðfesti þetta í ræðu sinni áðan þegar hann gat þess að á þessu ári væri verið að greiða um einum milljarði minna í vaxtabætur en áætlað var. Þeim sem hafa fengið vaxtabætur hefur fækkað verulega á undanförnum árum. Á því er ekki tekið svo að neinu nemi í þessu frumvarpi. Það væri ágætt ef ráðherra gæti upplýst okkur um hvað hann telji að þeim muni fjölga mikið sem komi til með að fá vaxtabætur við þessar ráðstafanir.

Það sem skiptir höfuðmáli í þessu eru, eins og við þekkjum, skerðingarmörkin, þ.e. hvenær vaxtabætur byrja að skerðast. Skerðingar á niðurfellingarmörkum vaxtabóta hafa því miður engan veginn fylgt verðlagi. Auk þess hafa hámarksgreiðslur vaxtabóta nánast haldist þær sömu síðan 2011. Ég nefndi í ræðu minni fyrr um fjárlagafrumvarpið að árið 2009 fengu 60% einhleypra fasteignaeigenda vaxtabætur en árið 2017 var þessi tala komin niður í 28%. Við sjáum hver þróunin hefur orðið.

Það er alveg ljóst að skerðingum á niðurfellingarmörkum vaxtabótanna verður að breyta. Það er ekki að sjá í þessu frumvarpi að það standi til svo neinu nemur og það er ekki traustverðugt og ekki hægt að byggja útreikning vaxtabóta á átta ára gömlum reglum. Þessi 5% hækkun á hámarksbótum sýnir að stjórnvöld gera sér engan veginn grein fyrir stöðunni á húsnæðismarkaðnum. Ef reglunum verður ekki breytt að einhverju viti er þessi boðaða hækkun á vaxtabótunum tilgangslaus. Ég hef áður sagt að það kerfi sem við búum við í dag er nánast ónýtt og að bæta peningum í ónýtt kerfi er slæm ráðstöfun. Við hljótum öll að sjá það og viðurkenna.

Við búum sem sagt við vaxtabótakerfi sem er ekki í sambandi við stöðuna á húsnæðismarkaðnum, gerir ekki ráð fyrir hærra húsnæðisverði og hærri vaxtagjöldum svo neinu nemur og það sjá allir að slíkt kerfi er gagnslaust. Það má því segja að sú hækkun vaxtabóta sem verið er að boða í þessu frumvarpi sé í raun og veru tálsýn. Rót vandans á húsnæðismarkaði er skortur á íbúðum á markaði. Gríðarlegar hækkanir á húsnæðisverði á síðustu árum eru fyrst og fremst komnar til vegna skorts á húsnæði. Það verður ekki séð að ríkisstjórnin taki á þeim vanda. Hún er ekki að taka á rótum vandans. Lítið framboð þýðir hærra verð eins og við þekkjum og hækkun vaxtabóta, sem óvíst er að skili yfir höfuð nokkru, og vegna úreltrar reiknireglu, eins og ég nefndi fyrr, fjölgar ekki íbúðunum á markaði. Því miður.

Óskandi væri að þessi hækkun myndi skila sér þangað og til þeirra sem þurfa mest á henni að halda. Það er ekki að sjá að það verði niðurstaðan í þessu. Því miður.