149. löggjafarþing — 6. fundur,  18. sept. 2018.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2019.

3. mál
[16:51]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég kann mjög að meta það að hæstv. fjármálaráðherra segi það hér að við myndum ekki láta ákvæði af þessu tagi renna út, sem til að mynda tekur frítekjumark vegna atvinnutekna við útreikning tekjutryggingar úr yfir milljón niður í 300 þúsund. Það er gott og blessað og ég býst sjálfur ekki við neinu öðru sem starfandi þingmaður og hafandi orðið þokkalega reynslu af þingstörfum.

En öryrkjar hafa ekki þá reynslu af yfirvöldum að sérstaklega sé tekið tillit til þarfa þeirra. Þeir hafa þvert á móti reynslu af því að ríkið sé skilningslaust og jafnvel beinlínis vont. Það er upplifun margra sem ég tala við, sem ég tel nú reyndar ekki vera tilfellið, en ég skil vel að fólk upplifi það þannig af því að þetta kerfi getur verið óttalegt skrímsli af og til — jafnvel hugsanlega oftast eða í það minnsta oft.

Ég skil líka mætavel að fólk vilji sjá heildarsýn í lögum þegar þessir hlutir eru teknir til. En getum við ekki gert hvort tveggja? Getum við ekki í það minnsta framlengt þessi bráðabirgðaákvæði eitthvað fram í tímann þannig að þau séu þá bara í gildi þar til vinnunni lýkur og þar til þessi heildarsýn er orðin til? Getum við þá ekki bara gert þau varanleg þar til sú vinna er búin? Ég sé ekkert að því heldur. Mig vantar rökin gegn því að samþykkja tillögu okkar á sínum tíma, um að festa þetta almennilega. Þessi óvissa þarf ekki að vera til staðar að mínu mati. Ég fullyrði að það hefði engar lögfræðilegar afleiðingar að gera þetta. Og ég sé ekki að það breyti neinu um kostnað eða breyti neinu um tímasetningar í kringum starf þar sem unnið yrði að nýrri heildarsýn.

Mig langar að vita hvort hæstv. ráðherra sé opinn fyrir því að framlengja þessi ákvæði í lengri tíma þannig að fólkið sem býr við það sem það upplifir sem svikult og brigðult kerfi geti sofið aðeins rólegar yfir þessum tilteknu atriðum.