149. löggjafarþing — 6. fundur,  18. sept. 2018.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2019.

3. mál
[16:54]
Horfa

Albertína Friðbjörg Elíasdóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Mig langar aðeins að spyrja hæstv. fjármálaráðherra út í áhrif þeirra breytinga sem hér eru lagðar til á ólíka íbúa landsins. Auðvitað er augljóst fyrir hvern sem les þessa tillögu að allar þessar breytingar hafa mjög ólík áhrif á ólíka hópa, en mig langar að velta upp annars vegar kynjasjónarmiðunum og hins vegar byggðasjónarmiðunum. Auðvitað geri ég mér grein fyrir að fjárlögin sem slík hafa þau sömu áhrif og ef til vill væri þetta eðlilegri spurning um fjárlagafrumvarpið en áhrif breytinganna hér eru einhvern veginn svo áþreifanleg og augljós.

Hæstv. ráðherra kom lítillega inn á möguleg byggðaáhrif einstakra greina áðan, en mig langar að spyrja ráðherra hvort ekki væri æskilegt að upplýsingar um ólík áhrif frumvarpa, sérstaklega fjárlaga og þessa frumvarps sem við ræðum hér, t.d. á kynin. Fara yfir það með kynjagleraugunum. Og sömuleiðis byggðaáhrifin, að þessar upplýsingar lægju fyrir um leið og frumvarpið kemur til þingsins þannig að þingið gæti haft þær til hliðsjónar í umfjöllun sinni.