149. löggjafarþing — 6. fundur,  18. sept. 2018.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2019.

3. mál
[16:56]
Horfa

Albertína Friðbjörg Elíasdóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. fjármálaráðherra fyrir svarið og fagna því að hann sé sammála mér um að það sé mikilvægt að þessi áhrif séu metin og liggi fyrir. Hins vegar ætla ég að lýsa mig aðeins ósammála því að frumvarpið hafi óveruleg áhrif, þær breytingar sem við ræðum hér. Ég vísa t.d. í það sem ég ætla reyndar að ræða á eftir varðandi hækkun á kolefnisgjaldinu. Ég held að það sé nokkuð augljóst að sú hækkun muni hafa ólík áhrif á íbúa landsins, sérstaklega þá sem búa á svæðum þar sem eru ekki komnir innviðir t.d. fyrir rafbíla og þá sem eiga einhverra hluta vegna erfitt með að nýta sér slík tæki vegna langra vegalengda og slíks.

Ég tek reyndar fram að á eftir er ég að fara að fagna hækkuninni. Það breytir því ekki að það er mikilvægt að þessar upplýsingar liggi fyrir, þ.e. um þau ólíku áhrif sem ákvarðanir okkar hafa. Það er nú kannski ekki beint spurning í þessu en mig langar bara að hvetja hæstv. fjármálaráðherra til að beita sér fyrir því að slíkar upplýsingar komi fram, alla vega í vinnunni við fjárlagafrumvarpið í þinginu.