149. löggjafarþing — 6. fundur,  18. sept. 2018.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2019.

3. mál
[17:00]
Horfa

Albertína Friðbjörg Elíasdóttir (Sf):

Frú forseti. Við ræðum breytingar á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2019. Ein af þeim er lög um umhverfis- og auðlindaskatta, nr. 129/2009, með síðari breytingum. Hér eru lagðar til, eins og gefur að skilja, alls kyns breytingar en sérstaklega langar mig að skoða og ræða hækkun á kolefnisgjaldi.

Eins og fram kemur í frumvarpinu og hæstv. fjármálaráðherra kynnti áðan er lögð til 10% hækkun á kolefnisgjaldi árið 2019 og um 10% árið 2020. Í loftslagsáætlun ríkisstjórnarinnar er stefnt á að hefðbundnir bílar sem ganga fyrir jarðefnaeldsneyti verði ólögmætir árið 2030.

Allt er það hið besta mál, enda vandamálið okkar í dag að til þess að ná markmiðum Parísarsamkomulagsins og forðast háar sektir þurfum við að minnka árlega losun gróðurhúsalofttegunda um 40% fyrir 2030. Það væri vægast sagt vandræðalegt, svo að ég taki ekki sterkar til orða, og jafnvel ótrúverðugt og síðast en ekki síst, eins og ég kom inn á áðan, dýrt ef fyrirmyndarlandið Ísland næði ekki settum markmiðum Parísarsamkomulagsins.

Til að ná því markmiði er augljósast að horfa til þess að minnka notkun jarðefnaeldsneytis sem liggur fyrst og fremst í samgöngum og í fiskveiðiflotanum. Því er eðlilegt að horfa til þess að hvetja neytendur og fyrirtæki til að velja vistvæna tækni og vistvæna orkugjafa. Rafbílar eru þar augljós lausn og sérstaklega heppileg í borgarsamfélagi en einnig hljótum við að horfa á aðrar leiðir eins og metan og vetni og auðvitað uppbyggingu almenningssamgangna, sem eru enn mikilvægari.

Í því samhengi stenst ég ekki freistinguna að nefna hvað Akureyrarbær hefur staðið sig vel. Þar er frítt í strætó, matarolíu er safnað frá fyrirtækjum og einstaklingum og endurnýtt í lífdísil og fiskiflotinn notar hluta af frönsku olíunni okkar til að vera aðeins umhverfisvænni, sem er mjög skemmtilegt. Settar hafa verið upp hleðslustöðvar víðs vegar um bæinn auk þess sem Norðurorka hf. safnar metangasi úr gömlu sorphaugunum og selur til nýtingar á metanbílum. Allt er þetta til mikillar fyrirmyndar og ég hvet þingheim til að kynna sér það sem hefur verið að gerast þar.

Ég kem upp til að taka undir með því sem kemur fram í greinargerð frumvarpsins, að skattlagning koltvísýringslosunar er hvati til að bæta orkunýtingu og nota hreina orku. Eins og ég hef komið inn á í ræðustól áður ber okkur Íslendingum skylda vegna þeirrar óvenju góðu stöðu sem við erum í að vera til fyrirmyndar þegar kemur að loftslagsmálum. Ef eitthvað er ættum við mögulega að ganga aðeins lengra, þó auðvitað með þeim fyrirvara að gert verði ráð fyrir undanþágum þar sem þær eiga við, eins og við komum lítillega inn á í andsvörum áðan, sums staðar er það þannig enn þá í dag að tæknilegu lausnirnar eru ekki nógu góðar til að komast lengri leiðir. Þar er það uppbygging innviða sem skiptir máli.

Frú forseti. Ég vil að lokum minna á hversu mikilvægt er að samhliða þeim breytingum verði sett enn aukið fjármagn til uppbyggingar innviða fyrir umhverfisvæna bíla, eins og rafbíla, um allt land til þess að þeir verði raunverulegur kostur fyrir flesta íbúa landsins. Nauðsynlegt er að við tryggjum það í fjárlögum 2019.