149. löggjafarþing — 6. fundur,  18. sept. 2018.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2019.

3. mál
[17:06]
Horfa

Albertína Friðbjörg Elíasdóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þm. Kolbeini Óttarssyni Proppé fyrir að benda á þessi mismæli mín því þarna vantaði að sjálfsögðu orðið nýskráningar. Það var kannski fullmikil bjartsýni hjá mér að ætla að það yrði búið að banna slíka bíla á Íslandi alfarið 2030. En mér finnst það sannarlega verðugt markmið að nýskráningum verði hætt árið 2030 og fagna því.

En af því að hv. þingmaður nefndi almenningssamgöngurnar er gaman að segja frá því að reynslan á Akureyri er sú að það hefur einmitt orðið aukning á notkun á strætó, þ.e. fleiri nýta sér almenningssamgöngur en gerðu, sem sýnir náttúrlega hversu mikilvægt það er að byggja upp góðar almenningssamgöngur. Ég hygg að við öll hér inni höfum reynslu af því að fara til útlanda og vera í stórborg þar sem manni dettur ekki einu sinni í hug að taka leigubíl, hvað þá að keyra sjálfur, því það er svo auðvelt og ódýrt að nota almenningssamgöngur. Ég vona að þingheimur muni tala fyrir því og leggja til að setja aukið fjármagn í að byggja upp almenningssamgöngur á landinu. Þar skortir því miður enn nokkuð á þótt Akureyringar standi sig vel.