149. löggjafarþing — 6. fundur,  18. sept. 2018.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2019.

3. mál
[17:07]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætlaði nú ekki að nýta seinna andsvarið mitt en þar sem hv. þingmaður kom inn á almenningssamgöngur almennt get ég ekki staðist mátið. Ég er svo hjartanlega sammála orðum hv. þingmanns áðan og raunar orðum annars hv. þingmanns sem talaði í störfum þingsins í dag um þessi mál. Það er fátt sem er mikilvægara í þessu þéttbýli sem við búum við á höfuðborgarsvæðinu en einmitt almenningssamgöngur. Þar eigum við öll að taka höndum saman og það er gríðarlega mikilvægt að vinna í eldsneytisgjöf bílanna sem aka um götur höfuðborgarsvæðisins. En það er ekki síður mikilvægt að fækka bílunum eða í það minnsta að gæta þess að hlutfallslega fjölgi þeim ekki eins mikið og þeir gera í dag. Við skulum muna að fram til ársins 2040 er gert ráð fyrir að höfuðborgarbúum fjölgi um 70 þúsund manns. Ef bílanotkun þeirra verður eins og bílanotkun okkar sem búum hér núna sjá allir í hendi sér hvernig umferðin verður, hve gríðarleg umferðarmannvirki mun þurfa til að sinna öllum þeim bílum.

Það er allra hagur að efla almenningssamgöngur. Borgarlínan er okkar allra hagur og við eigum að taka höndum saman og vinna að henni, það er líka hagur þeirra sem ætla sér ekki að nýta almenningssamgöngur því að það verða þá færri bílar á götum borgarinnar. Ég treysti því og hef ekki heyrt annað en að það sé mikill samhugur hér inni um að efla almenningssamgöngur og koma borgarlínuverkefninu vel af stað. Það er hægt að komast tiltölulega fljótt af stað með það þó að allt verkefnið taki vissulega lengri tíma.