149. löggjafarþing — 6. fundur,  18. sept. 2018.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2019.

3. mál
[17:28]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Ég geri alls ekki lítið úr þeirri náttúruvá sem steðjar að okkur í dag í heiminum, síður en svo og mjög mikilvægt að þjóðir heims taki sig saman í þeim efnum. Hv. þm. Ólafur Ísleifsson lagði hér fram ágæta fyrirspurn til umhverfisráðherra um þetta gjald, hverju það skilaði. Það kemur fram í svari hans að við höfum ekki svör við því hversu árangursríkt gjaldið er þegar kemur að því að berjast gegn þessari losun. Þarna eru þá komnir óvissuþættir sem ég tel mjög brýnt að verði rannsakaðir betur.

Við sáum það í fréttum fyrir stuttu að Katla er að losa einhver ósköp af koltvísýringi. Það eru því margar breytur í þessu sem við vitum ekki um. Ég er ekki gegn þessu gjaldi sem slíku en mér finnst það vera of hátt og hækkanirnar vera allt of skarpar og miklar og það hefur áhrif á heimilin, vísitölu neysluverðs o.s.frv. Það gerir eflaust að verkum að einhverjir sem hafa efni á því skipta yfir í rafmagnsbifreiðar o.s.frv., en það eru ekki allir sem hafa efni á því. Þetta eru farartæki sem henta ekki öllum, sem dæmi í landbúnaði og á landsbyggðinni þar sem maður keyrir lengri vegalengdir og hleðslustöðvar eru ekki á hverju strái.

Það er margt í þessu sem þarf að skoða betur að mínu viti til þess að hægt sé að segja með óyggjandi hætti að (Forseti hringir.) þetta sé að bera árangur.