149. löggjafarþing — 6. fundur,  18. sept. 2018.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2019.

3. mál
[17:30]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ber fulla virðingu fyrir því að kanna mál betur og fá fram betri gögn sem aðstoða okkur við að ná markmiðinu betur. Sömuleiðis veit ég það mætavel að þegar fólk er mjög upptekið af einhverju vandamáli þá er það stundum aðeins of fljótt að réttlæta einhverjar lausnir sem leysa ekki vandamálið. Aðspurt hvers vegna það notar þessa lausn þá þylur það upp hvert vandamálið er án þess að útskýra hvernig lausnin leysir vandamálið.

Ég ber virðingu fyrir því að við gætum þurft að leita ýmissa leiða og skoða málin ofboðslega vel og allt slíkt, en þetta snýst ekki bara um það að fólk sem hafi efni á því, sem á núna bensínbíl, geti skipt yfir í rafmagnsbíl. Þetta snýst um það að alltaf þegar við brennum eldsneyti þá á það að kosta aðeins meira vegna þess að það kostar meira, ekki okkur akkúrat núna heldur fyrir börnin okkar í framtíðinni. Það er það sem við þurfum að borga fyrir núna til þess að reyna að draga úr þeim áhrifum sem verða í framtíðinni. Þetta snýst ekki einfaldlega um það að skipta um bíl heldur að gera þá kosti sem brenna olíu aðeins dýrari en þá kosti sem gera það ekki. Rafmagnsbílar eru ekki eina lausnin. Ég átta mig á því að það er fullt af fólki í þeim aðstæðum að það þarf bensínbíl og þarf þá einfaldlega að borga aðeins meira. En það þarf þá kannski að forgangsraða betur hvenær það notar bílinn, þarf að forgangsraða betur hvernig það nýtir þau tæki sem það hefur sem brenna jarðefnaeldsneyti. Þetta hefur miklu víðtækari áhrif en bara það að fólk skipti yfir í rafmagnsbíl. Það er náttúrlega eitt og sér engin lausn á loftslagsvandanum, það veit ég mætavel og flestir í þessum sal.

Þetta er svo sem ekki mikil spurning, ég segi bara að ef hv. þingmaður eða einhver annar er með aðrar lausnir en þessa sem sá telur virka betur þá er ég allur eitt eyra. En ég hef ekki heyrt nein sannfærandi rök gegn því að þetta ætti ekki að virka eins og verðlagshækkanir virka almennt. (Forseti hringir.) Þær virka almennt þannig að fólk kaupir minna af hlutum ef þeir hækka í verði. Ég veit ekki alveg hvers vegna þetta ætti ekki að virka (Forseti hringir.) eins og með aðra hluti sem hækka í verði og eftirspurn eftir (Forseti hringir.) minnkar þá í kjölfarið.