149. löggjafarþing — 6. fundur,  18. sept. 2018.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2019.

3. mál
[17:33]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið og athyglisvert innlegg hans þegar hann kemur einmitt inn á það að við erum hugsanlega of fljótfær þegar kemur að þessari gjaldtöku vegna þess að við vitum ekki nákvæmlega hverju hún skilar. Þetta er mjög athyglisverður punktur hjá þingmanninum. Ég held að sé vert að skoða það nánar. Ég hef einmitt talað fyrir því hér.

Þetta hefur áhrif á vísitöluna, það er alveg klárt. Þetta eru töluverðar hækkanir. Þetta er eins og með vísitöluna, það eru óvissuþættir, það eru skekkjumörk í vísitölunni. Þessi skekkjumörk geta numið milljörðum, frá 5 og upp í 15 milljarða minnir mig í heildina, þegar við horfum á skuldir heimilanna sem nema um 1.700 milljörðum. Þessa skekkju borgar almenningur. Það er óréttlætismál.

Þá spyr maður sjálfan sig: Ef það er einhver skekkja í þessum mælingum, ef við erum of fljótfær í þessari gjaldtöku, er þá eðlilegt að almenningur þurfi að borga það í formi hærri vísitölu? Það finnst mér ekki. Mér finnst þetta vera innlegg í þessa umræðu sem skiptir máli.

En ég ítreka það hins vegar sem ég sagði áðan, ég dreg ekki úr þeirri umhverfisvá sem heimurinn stendur fyrir og þjóðir heims þurfa að koma sér saman um árangursríkar leiðir til þess að vinna gegn henni. En þau svör sem við höfum fengið frá hæstv. umhverfisráðherra benda til þess að það (Forseti hringir.) sé bara ekki alveg á hreinu hversu árangursríkt gjaldið er í þessari baráttu.