149. löggjafarþing — 6. fundur,  18. sept. 2018.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2019.

3. mál
[17:35]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Birgi Þórarinssyni fyrir ræðuna og langar að ræða aðeins áfram við hann um kolefnisgjaldið, en ræða hans snerist að mestu leyti um það. Hv. þingmaður hefur áhyggjur af því að ekki liggi nægilega vel fyrir hvaða áhrifum kolefnisgjaldið skili. Það kann vel að vera að ekki sé búið að kortleggja það alveg í einhverju tilteknu íslensku samhengi eða eitthvað þess háttar, en við þykjumst vita a.m.k. hvað kostar að gera ekki neitt í þeim aðstæðum að reyna að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Eins og hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson kom inn á áðan höfum við ekki efni á að gera ekki neitt, það er algjörlega ljóst.

Að mínu viti eru þessi mál fullrannsökuð, alla vega hvað það varðar að vita samhengið á milli losunar og loftslagsáhrifa, það er nokkuð vel þekkt. Það liggur líka fyrir að stærsti hlutinn af losuninni, þess hluta losunar sem við getum raunverulega haft áhrif á, þ.e. við sem neytendur, við sem íbúar í þessu landi, er akkúrat þessi hluti, þ.e. olíunotkun ökutækja. Ef hv. þingmaður er með aðra betri leið til að ná tökum á því á einhvern hátt finnst mér hann ætti að segja okkur frá því, af því að við höfum ekki heyrt það. Það kann vel að vera rétt hjá þingmanninum að þetta hafi mismunandi áhrif eftir því hvar fólk býr á landinu, en þá er það sjálfstætt vandamál til að leysa.