149. löggjafarþing — 6. fundur,  18. sept. 2018.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2019.

3. mál
[17:40]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka þingmanninum svarið. Það sem ég held að við séum að tala um er spurning sem er aldrei hægt að fá svar við. Það er aldrei hægt að fá svar við því hvort einstaklingur sem kaupir sér rafmagnsbíl keypti hann vegna þess að kolefnisgjaldið var hækkað eða vegna þess að umræðan um kolefnisgjaldið gerði það að verkum að hann eða hún hafði áhyggjur af því að vera að menga og hafa þar með áhrif á loftslagið. Ef umræðan um þetta er að hafa áhrif og ef þær tilfinningar og samræður sem við vekjum í samfélaginu með því hafa þau áhrif að fleiri kaupa sér rafmagnsbíla, fleiri skipta yfir í reiðhjól, almenningsvagna o.s.frv., þá er það gott, það í rauninni það sem við erum að reyna. Það er hins vegar aldrei hægt að mæla það beint, ekki nema maður spyrði hreinlega alla þá sem kaupa sér rafmagnsbíl hvort þeir keyptu rafmagnsbíl af því að kolefnisgjaldið hækkaði. Ég veit ekki hvort einhver hefur farið út í þá vinnu.

Það liggur hins vegar fyrir, hv. þingmaður, að nú þegar er veruleg aukning í nýskráningum rafmagnsbíla og tengiltvinnbíla og hún er umfram væntingar. Fiskiskipaflotinn hefur náð mjög góðum árangri í að ná niður kolefnislosun og almenningur bregst greinilega við. En ég ítreka það sem ég sagði áðan að aldrei verður hægt að vita nákvæmlega hver ástæðan er. Hins vegar er ég alveg sannfærður um að meðan einhverjir halda áfram að sá efasemdarfræjum um að þetta beri raunverulega árangur mun það skemma fyrir.