149. löggjafarþing — 6. fundur,  18. sept. 2018.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2019.

3. mál
[17:42]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég tek skýrt fram að ég er ekki að sá neinum efasemdafræjum. Hv. þingmaður veit að umhverfisráðherra hefur svarað því til að ekki sé hægt að sýna fram á það með óyggjandi hætti að gjaldið skili tilteknum árangri. Það er ekki verið að sá neinum efasemdafræjum. Þetta eru bara staðreyndir sem hafa komið fram í fyrirspurn til umhverfisráðherra.

Mér fannst hv. þingmaður svolítið afvegaleiða umræðuna þegar hann talaði um rafmagnsbílana og hvers vegna fólk kaupir sér rafmagnsbifreiðar. Í mínum huga er það sem skiptir mestu máli varðandi gjaldið eins og það er núna áhrifin sem það hefur á hækkun vísitölu, áhrifin sem það hefur á hækkun heimilanna, lán til heimilanna, íbúðalán o.s.frv. Það skiptir verulegu máli, hv. þingmaður, ef við erum að setja gjald á almenning sem hækkar vísitöluna, gjald sem er ekki vitað hvort skili því sem til er að ætlast. Hv. þingmaður hlýtur að skilja samhengið í því.

Það er rétt að halda því til haga að það sem skiptir verulegu máli í umræðu um þetta frumvarp eru miklar hækkanir á gjaldinu og áhrifin sem það hefur á heimilin í landinu. Þetta er mjög konkret spurning sem við þurfum að leggjast yfir og fá svör við. Síðan er það aftur á móti allt annað mál hvernig við finnum aðrar lausnir sem skipta máli og það er sérfræðinganna að gera.

Enn og aftur (Forseti hringir.) vil ég ítreka að gjaldtaka þegar slík óvissa er til staðar (Forseti hringir.) er mjög vafasöm í mínum huga.