149. löggjafarþing — 6. fundur,  18. sept. 2018.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2019.

3. mál
[18:02]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum vegna fjárlaga fyrir árið 2019. Á bls. 12 í greinargerð frumvarpsins, töluliði 6, 2. mgr., segir eftirfarandi:

„Áætlaður tekjuauki ríkissjóðs af 10% hækkun kolefnisgjalds er 550 millj. kr. að meðtöldum hliðaráhrifum á virðisaukaskatt. Áhrif þessa á vísitölu neysluverðs eru metin um 0,016% hækkun.“

Mér finnst þetta vera þokkalega skýrt og raunar kom hæstv. fjármálaráðherra inn á þessa tölu í sinni tölu hér áðan.

Ég sagði í andsvörum áðan að auðvitað væru þetta miklir peningar; 320 milljónir eru ekki litlir peningar. Þetta eru peningar sem svara á landsvísu sirka tíu litlum íbúðum. Það er alveg fullt. En heildaráhrifin á hvern stakan gjaldanda, upp á 160 kr. á milljónina, í þeim tilgangi að reyna að breyta neysluvenjum þannig að hægt verði að búa í þessu landi áfram næstu 100–200 árin — ég ætla ekki að fara að skattyrðast út í hv. þingmann um það hvort skiptir meira máli.